Þetta er orðinn vel þekktur vandi. Afleiðingarnar augljósar. Jólakílóin hrannast upp þegar setið er við hrokuð trog af söltu kjöti og kræsingum í tvær vikur. Allan desember tölum við um hvað þarf að taka við til að ná fyrri styrk, það er bévítans ræktin í janúar. Þessi kíló leka ekki burt af sjálfum sér í sófanum fyrir framan sjónvarpið. Það þarf lóð og hlaup og pallaþrek og vinnu og breytt matarræði. Lífsstílsbreytingu. Ljóst að árangri verður aðeins náð með aðgerðum.
Eins er það með viðspyrnuna. Við erum búin að tala um hana í rúma 20 mánuði. Allir greiningaraðilar um efnahagsmál segja að hröð viðspyrna ferðaþjónustunnar sé nauðsynleg til að kveikja efnahagslífið eftir faraldurinn. Og allir eru þeir sammála um að hún verði að eiga sér stað til að efnahagslíf og atvinnulíf komist sem fyrst í fyrra horf.
En það er eitt sem virðist ekki hafa náð alveg í gegn. Alveg eins og með jólakílóin þá virðist stundum sem fólk haldi að viðspyrnan verði til af sjálfri sér, í sófanum fyrir framan sjónvarpið. En það gerist ekki.
Grundvallarstefnuplögg ríkisstjórnar þurfa að tala betur saman
Það er verulega ánægjulegt að sjá að tekið er sérstaklega á ýmsum grundvallarverkefnum og stefnumálum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Því miður er ekki mikið samræmi milli þeirra fyrirheita og fjárlaga fyrir árið 2022. Vera má að það skrifist á vesen vegna hins undarlega fyrirbæris haustkosninga, en samt sem áður liggur fyrir að fjölmörg verkefni til að efla viðspyrnuna þarf að vinna, m.a. á vegum ráðherra ferðamála, ráðuneytis hennar og undirstofnana.
Það eru því vonbrigði að útgjöld til málefnasviðs ferðaþjónustu lækka í fjárlögum fyrir árið 2022. Það þýðir að ekki er lagt aukið fé til gagnaöflunar og rannsókna í ferðaþjónustu, til að styrkja uppbyggingu innviða í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða enn frekar, til að hægt sé að hraða uppbyggingu áfangastaðastofa um allt land, til að auka dreifingu ferðamanna um landið, til að hraða vinnu við aðgerðabundna stefnumótun í ferðaþjónustu og svo mætti áfram telja. Ákveðið hefur verið að leggja 200 milljónir króna í markaðssetningu fyrir ferðaþjónustu, sem er frábært, en það er þörf á svo miklu víðtækara átaki á ýmsum sviðum atvinnugreinarinnar.
Það er afar mikilvægt að þegar fjármálaáætlun kemur til umfjöllunar Alþingis á nýju ári verði sérstaklega horft til þess að samræma áherslur hennar við áherslur stjórnarsáttmálans um ferðaþjónustu.
Þetta reddast ekki neitt
Við segjum stundum að „þetta reddast“ sé eins konar mottó íslensku þjóðarinnar. Kynnum það ferðamönnum ósköp stolt af eigin hugkvæmni, dugnaði og útsjónarsemi. En á köflum finnst mér eins og við höfum misskilið þetta mottó hrapallega, á sama hátt og við sem þjóð misskiljum Bjart í Sumarhúsum. Bjartur er nefnilega ekki hetja heldur aumingi. Og „þetta reddast“ barasta ekki neitt nema einhver standi upp úr sófanum og reddi því. Fari í ræktina. Geri eitthvað í málinu.
Það er kannski hægt að segja að hlutirnir hafi reddast þótt ekkert hafi verið að gert, en það þýðir að reddingin felst í því að sætta okkur við að vera bara áfram jólafeit í sófanum að hámhorfa á Netflix. Það er ekki redding, það er frestun á vandanum sem leiðir bara til meiri vandamála síðar.
Á nákvæmlega sama hátt leiðir aðgerðaleysi núna til þess að viðspyrnan verði ekki hröð eða árangursrík. Þá mun samfélagslegur kostnaður til lengri tíma aukast, endurreisn efnahags- og atvinnulífs taka lengri tíma, minni tekjur koma í ríkiskassann og kostnaðurinn aukast. Það mun bitna óhjákvæmilega á lífskjörum okkar allra.
Í raun hafa efnahagslegar aðgerðir vegna þessa faraldurs, vinnumarkaðsúrræði, aðstoð við fyrirtæki og aðgerðir til að hraða viðspyrnunni, alls ekki snúist um skammtímaafkomu einstakra fyrirtækja í ferðaþjónustu, heldur um lífskjör íslensku þjóðarinnar í heildarsamhengi hlutanna.
Tafir eru sama og tap
Það er einfaldlega þannig í litlu samfélagi með sjálfstætt efnahagskerfi að til að viðhalda þeim góðu lífskjörum sem þjóðin býr við þarf atvinnulífið sífellt að búa til verðmæti. Þar eru gjaldeyristekjur sérstaklega mikilvægar því þær færa ný verðmæti inn í samfélagið, bæta einhverju við það sem fyrir er. Áratugum saman var það helsta bæn þeirra sem sýsluðu með stjórn efnahags- og peningamála að sterkar útflutningsatvinnugreinar yrðu fjölbreyttari en fiskur og ál. Með tilkomu ferðaþjónustu sem vaxandi grundvallarkrafts í útflutningi frá árinu 2010 varð sú bæn að veruleika. Gjaldeyrisöflun greinarinnar fyrir þjóðarbúið hefur gjörbylt grunnþáttum í efnahagslífinu, aukið stöðugleika og tryggt hraðari og meiri aukningu kaupmáttar og lífskjara betur en áður var mögulegt.
Hröð viðspyrna ferðaþjónustu þýðir á mannamáli að við þurfum að komast aftur á þann stað sem allra fyrst. Að tafir eru sama og tap. Tap fyrir okkur öll.
Tíminn er núna - tækifærin eru núna!
Kæru alþingismenn og ráðherrar. Stöndum nú spræk upp úr sófanum saman. Annars sitjum við öll í sameiginlegri súpu frestaðra og stærri vandamála til lengri tíma. Við vitum að eitt af stóru verkefnum ykkar á kjörtímabilinu liggur í að stemma af útgjöld og halla ríkissjóðs vegna faraldursins. En við vitum líka að besta leiðin til þess er að auka tekjuöflun ríkissjóðs með því að örva verðmætasköpun ferðaþjónustu og annarra atvinnugreina. Á www.vidspyrnan.is er hugmynd að plani frá einkaþjálfaranum um það hvernig hægt er að fara að því.
Keyrum‘etta í gang og kveðjum jólakílóin!
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar