Íbúðalánasjóður átti 1.894 íbúðir víðs vegar um landið í lok árs 2014, að því er fram kemur í skriflegu svari Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur þingmanns Vinstri grænna. Svarið var lagt fyrir á Alþingi í dag.
Langflestar íbúðirnar eru á Suðurnesjum, eða 781 íbúð, en sjóðurinn á 341 íbúð á höfuðborgarsvæðinu og 219 íbúðir á Suðurlandi. Samkvæmt svari húsnæðismálaráðherra eru 916 íbúðanna í sölumeðferð hjá fasteignasölum um land allt, og 889 íbúðir eru nú þegar í útleigu. Þá er unnið að þrifum, hreinsun og skráningu á 68 íbúðum sjóðsins til að koma þeim í sölu, og 21 íbúð er á leið á leigumarkað.
Úr skriflegu svari húsnæðismálaráðherra.
Nær allar íbúðirnar í umsjá Kletts í útleigu
Leigufélagið Klettur, sem er dótturfélag Íbúðalánasjóðs, annast rekstur 450 eigna í eigu sjóðsins og ekki hefur verið tekin ákvörðun um að færa fleiri eignir til félagsins, samkvæmt svari ráðherra. Þar af eru 433 íbúðir í útleigu. Flestar íbúðir Kletts er að finna á höfuðborgarsvæðinu, eða 161 íbúð, og þá annast leigufélagið rekstur 75 íbúða á Suðurnesjum, sem allar eru í útleigu enda mikil eftirspurn eftir húsnæði í sveitarfélaginu.
Eins og áður segir er eignarhald Kletts í höndum Íbúðalánasjóðs og ákveðið hefur verið að fjármögnun félagsins verði af hálfu sjóðsins, samkvæmt svari ráðherra. Fjármögnunarferlið hefur verið tilkynnt til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, en þaðan hafa engin svör borist.