Íbúðalánasjóður kynnti í dag nýtt skipulag, þar sem framkvæmdastjórum fyrirtækisins er fækkað úr sex í fjóra og starfsemi sjóðsins er flokkuð í fjögur svið: viðskiptasvið, útlánasvið, fjármálasvið og rekstrarsvið. Þetta er gert í kjölfar þess að vinnu við úrlausn skuldamála í kjölfar hrunsins er að mestu lokið. Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir því eðlilegt að aðlaga starfsemina að breyttum aðstæðum.
Nýja skipulagið er liður í stefnumótunarvinnu stjórnar ÍLS í framhaldi af skilum á skýrslu verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála.
Að því er fram kemur í tilkynningu frá sjóðnum hefur hann náð fram töluverðri rekstrarhagræðingu á síðustu tveimur árum en áframhaldandi hagræðing og einföldun starfseminnar verða áfram markmið. Nú á að „aðlaga reksturinn frekar að kjarnastarfsemi sjóðsins sem er að veita þjónustu í almannaþágu með húsnæðislánveitingum til almennings um allt land.“ Samhliða þessu ætlar sjóðurinn að halda áfram að selja eignir og draga úr þeim hluta starfseminnar sem tengdist úrlausn skuldamála, enda sé þeirri vinnu að mestu lokið.
Afkoman neikvæð um 808 milljónir á fyrri helmingi ársins
Afkoma Íbúðalánasjóðs var neikvæð um 808 milljónir króna á fyrri helmingi ársins, samanborið við 1.308 milljóna tap árið á undan. Þrátt fyrir tapið, var niðurstaðan betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Eiginfjárhlutfall sjóðsins hækkaði í 4,8 prósent en var 4,5 prósent í upphafi árs. Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir fimm prósent. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok tímabilsins er 17.279 milljónir króna en var 18.087 milljónir króna í árslok 2014.
Vaxtatekjur námu samtals rúmlega þrjátíu milljörðum krónum samanborið við vaxtatekjur upp á 27,5 milljarða á sama tíma í fyrra. Rekstrarkostnaður var 958 milljónir króna og lækkaði um fimmtán prósent eða 170 milljónir króna samanborið við sama tímabil árið 2014. Stöðugildum fækkaði um níu prósent á fyrri hluta ársins 2015 og voru 100 samanborið við 109 á sama tímabili árið 2014.
Sjóðurinn skilaði hagnaði upp á 3,2 milljarða króna á síðasta ári og er það í fyrsta sinn sem hann skilar slíkum frá árinu 2008. Í millitíðinni hefur sjóðurinn tapað tæpum 58 milljörðum króna og ríkissjóður hefur þurft að leggja honum til 53,5 milljarða króna frá árinu 2009 til að halda sjóðnum gangandi.
Þorri þess hagnaðar sem Íbúðalánasjóður sýnir fyrir árið 2014 er komin til vegna breytinga á virðisrýrnun útlána sjóðsins. Þ.e. innheimtanleiki lána hefur aukist um 2,5 milljarða króna. Þá skiptir hlutdeild sjóðsins í hagnaði dótturfélagsins Kletts, sem er leigufélag utan um hluta þeirra íbúða sem Íbúðalánasjóður hefur leyst til sín, líka töluverðu máli.
Ársreikningur sjóðsins sýnir að útlán hans hafi lækkað um 40,4 milljarða króna á síðasta ári. Hann er samt sem áður enn langstærsti íbúðalánveitandi á Íslandi með 43 prósent markaðshlutdeild. Hún hefur hins vegar minnkað hratt á undanförnum árum. Hún var talin vera á bilinu 55 til 60 prósent árið 2011. Ný útlán sjóðsins voru líka mjög lág. Alls námu þau 6,6 milljörðum króna á síðasta ári og samkvæmt mánaðarskýrslum sjóðsins var umfang lána til einstaklinga, venjubundin húsnæðislán, um 4,7 milljarðar króna. Til samanburðar jukust íbúðalán Landsbankans um 39 milljarða króna á síðasta ári, um nánast sömu krónutölu og heildarútlán íbúðalánasjóðs drógust saman.
Óvissa um framtíðarhlutverk
Vaxtamunur Íbúðalánasjóðs er ekki mikill, einungis 0,28 prósent. Hann dugar ekki fyrir virðisrýrnun sambærilegri þeirra sem efnahagshrunið fól í sér og vegna þessarra aðstæðna þarfnast sjóðurinn þess að eigandinn, skattgreiðendur á Íslandi, styðji við bakið á honum.
Það ríkir hins vegar gríðarleg óvissa um hvert framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs sé. Í skýrslu stjórnar sem fylgdi ársskýrslunni segir að þetta óvissuástand hafi staðið yfir „frá þeim tíma er félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála 9. september 2013 í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda íslenskra heimila sem samþykkt var á Alþingi vorið 2013. Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála hefur skilað ráðherra tillögum sínum og unnið er að því í velferðarráðuneytinu að skapa ramma framtíðarfyrirkomulags með laga- og reglugerðasmíð sem vonandi verður tilbúið sem fyrst. Fyrir vikið hefur stefnumótandi ákvörðunartaka í nánasta umhverfis sjóðsins verið sett í biðstöðu en slíkt hefur áhrif á rekstur sjóðsins með ýmsum hætti“.
Bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Efnahags- og framfarastofnunin vilja að Íbúðalánasjóður verði lagður niður.