Vísitala íbúðaverðs á höfuborgarsvæðinu lækkaði um 0,4 prósent í ágúst frá fyrri mánuði, samkvæmt nýbirtum tölum frá Þjóðskrá. Þetta er í fyrsta sinn síðan í nóvember árið 2019 sem íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkar á milli mánaða.
Íbúðaverð hefur hækkað hratt á höfuðborgarsvæðinu rétt eins og víðar um land undanfarin misseri og síðastliðna 12 mánuði hækkaði vísitalan, sem sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs, um alls 23 prósent.
Undanfarna þrjá mánuði hefur hækkunin þó einungis numið 2,9 prósentum og því ljóst að verulega er farið að hægjast á verðhækkunum – og þær jafnvel byrjaðar að ganga til baka, ef marka má breytingar á vísitölunni.
Einungis vísitalan fyrir sérbýli lækkaði
Verð á eignum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hélt áfram að hækka lítillega á milli mánaða, samkvæmt gögnum Þjóðskrár.
Vísitalan fyrir sérbýli gaf hinsvegar eftir og gefur til kynna að meðalfermetraverð einbýlishúsa á höfuðborgarsvæðinu hafi lækkað um 2,4 prósent frá fyrri mánuði.
Vextir halda áfram að hækka
Í síðasta júlímánuði hækkaði íbúðaverðið um 1,1 prósent frá fyrri mánuði, sem var mun minni hækkun á milli mánaða en mælst hafði í nokkuð langan tíma.
Þótti það merki um að aðgerðir Seðlabanka Íslands till þess að hafa hemil á verðbólgu væru byrjaðar að hafa áhrif á húsnæðismarkaðinn, en stýrivextir höfðu þá verið hækkaðir upp í 4,75 prósentustig.
Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað svo undir lok ágústmánaðar að hækka vexti enn frekar og eru stýrivextir nú 5,5 prósent.