Á síðustu tólf mánuðum hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 10,6 prósent og leiguverð um 1,8 prósent, samkvæmt vísitölum Þjóðskrá Íslands yfir fasteignaverð annars vegar og leiguverð hins vegar á höfuðborgarsvæðinu.
Milli júní og júlí hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,9 prósent, samkvæmt vísitölu Þjóðskrár sem sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Síðastliðna þrjá mánuði hefur vísitalan hækkað um tvö prósent og síðastliðna sex mánuði hefur hún hækkað um 3,9 prósent.
Vísitala leiguverðs lækkaði milli júní og júlí um 1,5 prósent. Síðastliðna þrjá mánuði hefur vísitalan lækkað um tvö prósent og síðastliðna tólf mánuði hefur hún hækkað um 1,8 prósent, eins og fyrr greinir. Vísitalan sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs eftir þinglýstum leigusamningum. Þróunina síðustu tólf mánuði má sjá hér að neðan.