Allir mælikvarðar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar sýna mikinn eftirspurnarþrýsting eftir íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi auglýstra eigna á svæðinu er sögulega lítill, auk þess sem sölutími þeirra hefur aldrei mælst styttri og hlutfall þeirra sem selst á yfirverði hefur aldrei mælst hærra. Þetta kemur fram í nýútgefinni mánaðarskýrslu stofnunarinnar um húsnæðismarkaðinn.
Mesta hækkunin á höfuðborgarsvæðinu
Samkvæmt skýrslunni hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 11,6 prósent á milli aprílmánaða 2020 og 2021. Annars staðar á landinu hefur íbúðaverð verið öllu stöðugra, en ef höfuðborgin og nágrannasveitarfélög hennar eru talin frá hefur íbúðaverð aðeins hækkað um 0,6 prósent á sama tímabili.
Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkkaði nærri tvöfalt meira í verði á milli mánaða en íbúðir í fjölbýli, eða um ríflega 3,5 prósent á móti 1,6 prósent á milli mars og apríl. Miðgildi kaupverðs í sérbýli var um 88 milljónir króna í apríl og hefur hækkað um tæpar fjórar milljónir frá ársbyrjun. Miðgildi íbúðar í fjölbýli hefur einnig hækkað töluvert á þessu tímabili, eða úr rúmum 48 milljónum í janúar til 50 milljóna í apríl.
Stuttur sölutími og líklegri að seljast á yfirverði
Á sama tíma heldur sölutími íbúða áfram að styttast og hefur hann ekki verið styttri á höfuðborgarsvæðinu, en nú er hver íbúð sem skráð er þar að meðaltali á sölu í 39 daga. Til viðmiðunar var meðalsölutími íbúða á svæðinu rúmlega tvöfalt lengri árið 2016.
Einnig hefur aldrei verið líklegra að íbúðir seljist á yfirverði á höfuðborgarsvæðinu, en frá febrúar til apríl var rúmur þriðjungur þeirra seldur yfir ásettu verði. Samsvarandi hlutfall var undir tíu prósentum hjá íbúðum í fjölbýlishúsi áður en faraldurinn skall á.
Öfug þróun á leigumarkaði
Þrátt fyrir þessa mikla hækkun hefur öfug þróun átt sér stað á leigumarkaði, en þar hefur leiguverð lækkað um 2,4 prósent á milli aprílmánaða 2020 og 2021. Þetta er áttundi mánuðurinn í röð þar sem ársbreytingin á leiguverði mælist neikvæð. Hins vegar virðist eftirspurn eftir leiguhúsnæði ekki enn hafa minnkað ef miðað er við fjölda þinglýstra leigusamninga, en samkvæmt skýrslu HMS hafa þeir verið margir í vor miðað við árstíma.
Meðalfjárhæð greiddrar leigu í apríl nam 187 þúsund krónum á mánuði og hefur hún lækkað um 20 þúsund krónur á síðustu tveimur árum. Meðalstærð leiguíbúða er 71 fermetri.