Icelandair Group tapaði 13,7 milljörðum króna á árinu 2021 miðað við gengi krónu í lok þess árs en félagið gerir upp í Bandaríkjadölum. Þar af tapaði félagið 5,1 milljarði króna á síðustu þremur mánuðum ársins. Eldsneytisverð á síðasta ársfjórðungi ársins var að meðaltali tólf prósent hærra en á þriðja ársfjórðungi og 91 prósent hærra en á fjórða ársfjórðungi árið á undan og hafði þar af leiðandi umtalsverð áhrif á afkomu Icelandair Group. EBIT, afkoma félagsins fyrir fjármagnsgjöld og skatta á fjórða ársfjórðungi batnaði verulega milli ára og var sú besta frá árinu 2016.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna uppgjörs síðasta árs sem birt var í gærkvöldi.
Rekstrartap á síðasta ári var 17,7 milljarðar króna, en endanlegt tap dróst saman vegna þess að aðrar tekjur voru jákvæðar. Þar á meðal voru sala eigna, í Iceland Travel og Icelandair Hotels, og tekjufærsla vegna reiknaðra vaxta á vaxtalausri frestun á greiðslu skatta.
Icelandair flutti 1,5 milljónir farþega í millilanda- og innanlandsflugi á árinu 2021 og jók framboð í 65 prósent af því sem það var 2019.
Mikið tap á síðustu árum
Tap Icelandair Group á árinu 2020 var 51 milljarður króna, árið 2019 tapaði það 7,8 milljarðar króna og á árinu 2018 var tapið um 6,8 milljarðar króna. Því hefur samstæðan tapað yfir 79 milljörðum króna á síðustu fjórum árum.
Tvær hlutafjáraukningar í faraldrinum
Icelandair Group fór tvívegis í hlutafjáraukningu eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Félagið safnaði alls 23 milljörðum króna í útboði sem fór fram í september 2020, en það hefur átt í miklum rekstrarvanda um árabil sem jókst verulega þegar kórónuveirufaraldurinn reið yfir.
Icelandair Group gerði svo bindandi samkomulag við bandaríska fjárfestingarsjóðinn Bain Capital um að hann keypti nýtt hlutafé í flugfélaginu í fyrrasumar. Samkvæmt samkomulaginu greiddi Bain Capital 8,1 milljarð króna og eignaðist fyrir vikið 16,6 prósent hlut í Icelandair Group. Bain Capital átti 15,7 prósent hlut í Icelandair Group um síðustu áramót og var lang stærsti eigandi félagsins.
Þrátt fyrir mikinn taprekstur hefur hlutabréfaverð í Icelandair Group rúmlega tvöfaldast frá því að hlutabréfaútboðið í september 2020 fór fram. Hluthafar í árslok voru 15.287 og fjölgaði um 1.779 í fyrra.
Reikna sér tekjur af frestuðum skattgreiðslum
Í uppgjöri Icelandair Group kemur fram að það hafi gefið út inneignir, gjafabréf eða flugpunkta til viðskiptavina sinna fyrir alls rúmlega 259 milljónir dala, alls 33,7 milljarða króna miðað við árslokagengi Bandaríkjadals.
Það þýðir að félagið hafi fengið greiðslu fyrir flug að þeirri upphæð sem það hefur ekki getað flogið hingað til, en mun þurfa að gera til að standa við gerðar skuldbindingar án þess að fá neinar nýjar tekjur á móti.
Sú upphæð hækkaði úr 24,4 milljörðum króna í lok árs 2020, eða um 9,3 milljarð króna á síðasta ári.
Upphæðin sem Icelandair hefur gefið út í inneignir samsvarar tæplega 60 prósent af öllu lausafé félagsins í lok síðasta árs.
Icelandair Group hefur líka nýtt sér úrræði stjórnvalda um að fresta skattgreiðslum og tryggingargjaldi sem félagið hefur dregið af starfsfólki. Heildarupphæðin sem félagið hefur frestað greiðslu á er 9,3 milljónir Bandaríkjadala, eða 1,2 milljarðar króna. Þessi lán vera enga vexti en Icelandair Group reiknar þann vaxtakostnað sem félagið sparar sér til tekna upp á alls 365 milljónir króna.