Icelandair Group tapaði 6,5 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það er meira tap en varð á fyrsta ársfjórðungi 2021, þegar starfsemi félagsins var mun minni vegna heimsfaraldursins. Þá tapaði flugfélagið tæpum fjórum milljörðum króna á núverandi gengi, en Icelandair Group gerir upp í Bandaríkjadölum. Tap Icelandair Group á fyrsta ársfjórðungi 2022 var því 65 prósent meira en það var á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.
Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins sem birt var í gær.
Umsvif Icelandair Group hafa aukist mikið síðustu misseri eftir að heimurinn opnaðist á ný í kjölfar þess að ferðatakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins fækkaði. Tekjur Icelandair Group voru 20,3 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi sem er 178 prósent hærri tekjur en félagið hafði á sama tímabili í fyrra. Í tilkynningu útskýrir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, tapið með því að ýmsir þættir hafi haft áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Þar beri fyrst að nefna mikla hækkun á eldsneytisverði, en heimsmarkaðsverð eldsneytis hækkaði um 75 prósent milli ára, áhrif ómíkron afbrigðisins á eftirspurn og „umtalsverður útlagður kostnaður á fjórðungnum í tengslum við undirbúning metnaðarfullrar flugáætlunar okkar í sumar“.
Félagið var lánalínu með ríkisábyrgð upp á 16,5 milljarða króna sem það sagði upp fyrr á þessu ári, á sama tíma og það kynnti hugmyndir um nýtt hvatakerfi fyrir stjórnendur sína. Lausafjárstaða Icelandair Group hefur versnað um tólf prósent frá áramótum.
Mikið tap í lengri tíma
Samanlagt tap Icelandair Group frá byrjun árs 2018 er því næstum 86 milljarðar króna. Félagið tapaði 13,7 milljörðum króna í fyrra, 51 milljarði króna árið 2020, árið 2019 tapaði það 7,8 milljarðar króna og á árinu 2018 var tapið um 6,8 milljarðar króna.
Icelandair Group fór í nokkrar hlutafjáraukningar eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Félagið safnaði alls 23 milljörðum króna í útboði sem fór fram í september 2020, en það hefur átt í miklum rekstrarvanda um árabil sem jókst verulega þegar kórónuveirufaraldurinn reið yfir.
Icelandair Group gerði svo bindandi samkomulag við bandaríska fjárfestingarsjóðinn Bain Capital um að hann keypti nýtt hlutafé í flugfélaginu í fyrrasumar. Samkvæmt samkomulaginu greiddi Bain Capital 8,1 milljarð króna og eignaðist fyrir vikið 16,6 prósent hlut í Icelandair Group. Bain Capital á 14,96 prósent hlut í Icelandair Group og er lang stærsti eigandi félagsins. Aðrir stórir eigendur eru íslenskir lífeyrissjóðir. Til viðbótar hafa verið sóttir nokkrir milljarðar króna og alls nemur umfang þess fjár sem Icelandair Group hefur sótt sér 33 milljörðum króna.
Þrátt fyrir mikinn taprekstur hefur hlutabréfaverð í Icelandair Group rúmlega tvöfaldast frá því að hlutabréfaútboðið í september 2020 fór fram.
Innleiddu hvatakerfi fyrir lykilfólk
Ekkert eitt fyrirtæki fékk meiri fyrirgreiðslu úr ríkissjóði vegna kórónuveirufaraldursins en Icelandair Group. Þá hefur Icelandair Group endursamið, af mikilli hörku, við helstu stéttarfélög starfsmanna sinna. Sagði meðal annars 95 prósent flugfreyja upp á meðan að á kjaraviðræðum við þær stóð. Eftir að þær kolfelldu kjarasamning var talað um að ráða fólk úr öðru stéttarfélagi.
Þrátt fyrir mikinn taprekstur og ríkisstuðning ákvað stjórn Icelandair Group að setja á fót hvatakerfi fyrir framkvæmdastjórn og lykilstarfsmenn félagsins fyrr á þessu ári, og var tillaga hennar þar um samþykkt á aðalfundi. Markmiðið með innleiðingu hvatakerfisins var meðal annars sagt vera að draga úr líkum á að hópurinn yfirgefi Icelandair Group með litlum fyrirvara.
Í kerfinu felst að hópurinn mun geta fengið allt af 25 prósent af árslaunum sínum í bónus í formi kaupréttar á hlutum í Icelandair Group. Fyrirhugað er að gefa út 250 milljón hluti í ár vegna kerfisins og alls 900 milljón hluti á þriggja ára tímabili. Miðað við markaðsvirði Icelandair Group í dag er virði þeirra hluta sem greiða á út sem kaupauka um tveir milljarðar króna. Hægt verður að innleysa umrædda kauprétti að þremur árum liðnum.
Áður hafði Kjarninn greint frá því að laun og hlunnindi forstjóra Icelandair Group hefðu hækkað um 48 prósent milli 2020 og 2021. Í svari við fyrirspurn Kjarnans um ástæður þessa sagði að breytinguna mætti „langmestu leyti rekja til þess að á árinu 2020 tók forstjóri á sig 30 prósent launalækkun stærstan hluta ársins. Þess má geta í þessu samhengi að ársreikningur félagsins er í USD en öll laun á Íslandi, þ.m.t. forstjóra eru greidd í íslenskum krónum. Meðalgengi íslensku krónunnar gagnvart USD styrktist á milli ára og ýkir það hækkunina í ársreikningnum.“