Félög iðnaðarmanna sem eru í samstarfi um endurnýjun kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins samþykktu verkfall í atkvæðagreiðslu sem lauk í dag. Kosningaþátttakan var 44,6 prósent, en kosningarnar náðu til 10.499 félagsmanna í 25 stéttarfélögum. 75 prósent þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já við verkfallsboðun en rúmlega 22 prósent sögðu nei.
Félögin sem um ræðir seru MATVÍS, Grafía, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, aðildarfélög Samiðnar, Félag hársnyrtisveina og aðildarfélög Rafiðnaðarsambands Íslands.
Tímabundin verkföll munu hefjast að óbreyttu þann 10. júní næstkomandi og ótímabundið verkfall hæfist í lok ágúst. Ef ekki næst „ásættanlegur árangur“ í viðræðum við atvinnurekendur á næstu dögum koma verkföllin til framkvæmda, samkvæmt tilkynningu frá félögunum.