Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands og ytri nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, segir „illskiljanlegt“ að ekki sé enn búið að koma á ódýru innlendu greiðslukerfi sem ekki sé unnt að rjúfa „með því að skemma þá neðansjávarstrengi og kapla sem fjarskipti okkar við umheiminn fara um.“
Þetta er á meðal þess sem Gylfi gerir að umtalsefni í grein í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem barst áskrifendum síðasta föstudag, en þar fjallar hann einnig um ýmsar vendingar í efnahagsmálum í heiminum og nýjustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.
„Það var bent á það fyrir rúmum þremur árum að greiðslukerfið hér á landi væri berskjaldað fyrir því að þessir strengir væru eyðilagðir,“ skrifar Gylfi í greininni og bendir á að nú hafi styrjöld brotist út og gasleiðslur í Eystrasalti verið sprengdar.
„Bretland og Noregur hafa gripið til aðgerða til þess að vernda neðansjávarstrengi og leiðslur. Það er illskiljanlegt af hverju eftir þrjú ár hefur ekki tekist að koma á innlendri greiðslumiðlun eins og þeirri sem var til í fjármálakreppunni árið 2008 og skipti sköpum þegar viðskipti við erlenda banka stöðvuðust. Á stríðstímum verður að hafa hraðann á,“ skrifar Gylfi.
Fjallað var um áhættuþætti í greiðslumiðlun á Íslandi í ritinu Fjármálastöðuleika, sem Seðlabankinn gaf út í lok september samhliða yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar.
Þar var bent á að alvarleg netárás í greiðslumiðlun gæti leitt til þjónusturofs í lengri tíma og raskað miðlun fjármagns í hagkerfinu og að annars konar rof í innlendri rafrænni greiðslumiðlun gæti líka valdið skaða, m.a. ef netsamband rofnaði við umheiminn eða alþjóðlegt kortafyrirtæki tæki ákvörðun um að loka á notkun innlendra debet- og kreditkorta.
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans áréttaði í yfirlýsingu sinni frá 28. september mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og sagði að í ljósi stöðunnar væri „mikilvægt“ að skref hefðu verið tekin í átt að óháðri innlendri smágreiðslulausn.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér