Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að það hafi verið mistök að svara ekki spurningum fjölmiðla um tengsl sín við fyrirtækið Orku Energy. Hann taldi að ekki væri um hagsmunatengsl að ræða þegar hann seldi hús sitt til Hauks Harðarsonar, stjórnarformanns Orku Energy og vinar, en Illugi vann hjá fyrirtækinu þegar hann var utan þings. Þetta segir Illugi í föstudagsviðtalinu í Fréttablaðinu í dag.
„Í upphafi þessa máls leitaðist ég við að svara þeim spurningum sem var beint til mín. Ég skal játa það að fárviðrið varð svo mikið að það var eiginlega alveg sama hverju ég svaraði – sömu spurningarnar komu upp aftur, urðu þá tilefni nýrra frétta og nýrra fyrirsagna. Mér leið þannig þegar mestur hamagangurinn var að það hefði nákvæmlega ekkert upp á sig að segja nokkuð. Ég taldi mig hafa sagt frá því sem skipti máli. Ég skal viðurkenna það að það voru mistök af minni hálfu. Ég hugsaði, eins og ég hef lýst, að ég hefði jú selt húsnæðið, fengið greiðslu fyrir það og látið húsnæðið af hendi og það væri ekkert óeðlilegt við það. Ég taldi að það væri ekki um nein slík hagsmunatengsl að ræða að ég þyrfti að kynna þau sérstaklega. Ég horfði til þeirra reglna sem þingið setti og það sem ég var að nefna hér áðan, Grecor-nefndin og svo framvegis, en þetta voru mistök,“ segir Illugi. Hann segist vera mjög ósáttur við sjálfan sig vegna málsins.
Í viðtalinu segir Illugi ekkert í málinu kalla á afsögn hans sem ráðherra eða þingmaður og segist ekki eiga von á öðru en að haldi áfram í stjórnmálum. Um gagnrýni Páls Magnúsonar, fyrrum útvarpsstjóra, segir Illugi að heift sé í orðum Páls.
„Mér finnst Páll Magnússon ekki gæta mikillar sanngirni í þessu sem hann er að tala um, fjárhagsstuðningi sem síðan hafi verið endurgoldinn í pólitískum stuðningi. Hið rétta í málinu er og hefur komið fram ítrekað, að, já, ég seldi íbúð okkar hjóna, fyrir því er þinglýst afsal. Við létum af hendi okkar eign. Ástæðan er sú að við vorum með töluverðar skuldir á þessari íbúð. Við lentum eins og margir í vanda eftir hrunið. Við höfðum keypt okkar fyrstu eign fyrir hrun og stóðum í erfiðum málum hvað það varðaði. Svo bættist við atvinnurekstur sem við höfum verið í innan fjölskyldunnar þar sem féllu á okkur ábyrgðir. Þar voru engar risatölur á ferðinni, en það gerði okkur þetta ekki auðveldara. Eins kom þarna tímabil þar sem voru ekki miklar tekjur. Staðan var þannig að mér fannst betra að selja íbúðina og grynnka þá á skuldunum og í staðinn leigðum við íbúðina. Það að líta á sölu íbúðarinnar sem einhvers konar fjárframlag eða peningagjöf, það bara stríðir gegn allri almennri skynsemi og síðan hitt að ég hafi einhvern veginn veitt þessu fyrirtæki óeðlilega pólitíska fyrirgreiðslu,“ segir Illugi í viðtalinu.