Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra hefur skýrt frá því að Haukur Harðarson, stjórnarformaður Orku Energy, hafi keypt íbúð Illuga af honum vegna fjárhagsvandræða. Illugi og kona hans leigja íbúðina svo af Hauki. Hann hefur ekki enn útskýrt hvers vegna hann sagði ekki frá þessu fyrr. Til dæmis í þau fjölmörgu skipti sem hann var spurður um tengsl sín við Orku Energy undanfarnar vikur, vegna vinnuferðar sem hann fór í til Kína í síðasta mánuði ásamt fulltrúum fyrirtækisins sem hann starfaði áður hjá.
Illugi hefur notað vinnu annarra ráðherra í tengslum við Orku Energy í málflutningi sínum. Í gær sagðist hann örugglega hafa gert minna fyrir Orku Energy heldur en „þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson, þegar þau voru í Kína árið 2013 og ekki meira en Katrín Jakobsdóttir þáverandi menntamálaráðherra gerði þegar hún var viðstödd undirritun samninga Orka Energy og kínverskra stjórnvalda“ árið 2012.
Þarna skautar Illugi algjörlega framhjá aðalatriðum málsins. Það að ráðherrar komi að málum sem þessum er ekki endilega tortryggilegt eitt og sér. Ráðherrarnir þrír sem Illugi nefnir hafa hins vegar ekki starfað og þegið laun frá Orku Energy, og hafa ekki heldur verið fjárhagslega háðir fyrirtækinu eða stjórnendum þess. Það hefur Illugi hins vegar verið og er enn, og það án þess að gera grein fyrir því fyrr en hann nánast neyddist til þess þar sem fjölmiðlar voru komnir á snoðir um málið. Þegar þetta leggst allt saman er málið orðið vægast sagt loðið. Það eru grundvallaratriðin í málinu. Þetta er það sem verið er að gagnrýna og þetta er það sem hann þarf að svara fyrir.