Þau störf sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, vann fyrir Orku Energy á árinu 2011 voru vegna verkefnis í Singapúr. Aðspurður um hvaða sérþekkingu hann hafði til að sinna þeim störfum sem hann sinnti svarar Illugi: „Próf í hagfræði frá Háskóla Íslands og MBA frá London Business School“.
Heildargreiðslur Illuga vegna starfa fyrir Orku Energy voru um 5,6 milljónir króna fyrir skatt. Líkt og fram hefur komið voru laun hans greidd fyrirfram en síðan gefin út launaseðill í febrúar 2011. Hann var birtur á Twitter-síðu Þorbjörns Þórðarsonar, fréttamanns á Stöð 2, á föstudag.
Launaseðill Illuga Gunnarssonar frá Orku Energy gefinn út í febrúar 2012. Launauppgjör vegna vinnu á árinu 2011. pic.twitter.com/vvM5hIh4xJ
Auglýsing
— Þorbjörn Þórðarson (@thorbjornth) October 9, 2015
Kjarninn spurði Illuga einnig hvort Haukur Harðarson, stjórnarformaður Orku Energy, hefði verið með í veiðiferð í Vatnsdalsá sem Illugi fór í í fyrrasumar. Illugi svaraði því til að hann veiti ekki fjölmiðlum upplýsingar um ferðir einstaklinga eða um aðra persónuhagi þeirra.
Segist engin lán hafa fengið
Illugi hefir legið undir ámæli vegna tengsla sinn við Hauk Harðarson, stjórnarformann fyrirtækisins Orku Energy. Haukur réð Illugu sem ráðgjafa fyrirtækis síns á meðan að Illugi var í launalausu leyfi frá þingstörfum vegna rannsóknar á peningamarkaðssjóði Glitnis, Sjóði 9, þar sem Illugi sat í stjórn fyrir bankahrunið. Haukur keypti síðan íbúð Illuga af honum í fyrrasumar og leigði honum hana síðan aftur. Illugi var þegar orðinn ráðherra þegar hann seldi íbúðina, en það gerði hann eftir að „nokkur fjárhagsleg áföll“ höfðu dunið á honum.
Fjölmiðar hafa ítrekað óskað frekari skýringa á ýmsum flötum málsins frá Illuga undanfarna mánuði, en án árangurs. Hann tjáði sig loks um hluta málsins í viðtali við Fréttablaðið á föstudag og viðurkenndi þá að það hefðu verið mistök að svara ekki fjölmiðlum. Ekkert í málinu kalli hins vegar á afsögn hans sem ráðherra eða þingmanns.
Síðar sama dag kom Illugi í viðtal í beinni útsendingu við fréttastofu Stöðvar 2 til að útskýra meintar lánveitingar Orku Energy til sín. Samkvæmt launaseðlinum var ekki um lán að ræða heldur fyrirframgreidd heildarlaun upp á 5,6 milljónir króna. Samtals nam fyrirframgreiðslan 2.950 þúsund krónum.
Í svörum sínum við fyrirspurn Kjarnans ítrekar Illugi að hann hafi ekki fengið neitt lán frá Hauki.
Segir yfirlýsingar um spillingu fráleitar
Í Morgunblaðinu í morgun birtist aðsend grein eftir Illuga. Í greininni ítrekar ráðherrann að hann telji ekkert í samskiptum sínum við Orku Energy gera hann fjárhagslega háðan fyrirtækinu og að hann hafi ekki veitt fyrirtækinu "aðstoð umfram það sem aðrir ráðherrar og ráðamenn hafa gert á undanförnum árum. Yfirlýsingar um spillingu eru því fráleitar og munu að mínu mati dæma sig sjálfar þegar fram líða stundir."
Í greininni fjallar Illugi einnig um hvort stjórnmálamaður eigi alltaf að svara spurningum fjölmiðla, t.d. um persónuleg fjármál hans. Hann segir það langt í frá sjálfgefið að svo sé. "Lyndon B. Johnson kallaði reyndar slík trikk "make the bastards deny it" aðferðina, en sú aðferð byggir á því að á menn eru bornar ósannaðar ávirðingar og þeim gert að svara þeim. Þannig er hægt að halda áfram og ef síðan stjórnmálamaðurinn neitar að svara þá er sú þögn gerð grunsamleg og túlkuð sem sönnun á sekt. Ýmsar spurningar sem ég hef fengið frá fjölmiðlum vegna þessa máls falla undir þessa aðferðarfræði," segir Illugi.