InDefence-hópurinn segir að talsverð hætta sé að svigrúm til að aflétta höftum á almenning verði lítið næstu árin, að stöðugleikaskilyrðin séu ódýr leið fyrir kröfuhafa slitabúa föllnu bankanna úr gjaldeyrishöftum og að greiðsla stöðugleikaskilyrða muni skerða lífskjör almennings. Þetta er meðal þess sem fram kemur í bréfi hópsins sem sent var til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær og Kjarninn hefur undir höndum.
InDefence, sem vakti fyrst athygli fyrir baráttu sína í Icesave-málinu, hefur látið sig mál sem tengjast losun fjármagnshafta varða undanfarin misseri. Hópurinn hefur gagnrýnt það samkomulag sem stjórnvöld gerðu við kröfuhafa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans um greiðslu stöðugleikaframlags og sagt það gefa þeim gríðarháan afslátt af stöðugleikaskatti, sem annars myndi falla á slitabú föllnu bankanna.
Segja greiðslu stöðugleikaskilyrða skerða lífskjör á Íslandi
Í bréfi InDefence segir að tillögur um stöðugleikaframlag geri ráð fyrir að slitabúin greiði 334 milljarða króna, sem svari til 15 prósent skatts á eignir slitabúanna. Það sé talsvert undir þeim 39 prósentum sem stöðugleikaskatturinn mydni skila. „Það stefnir því í að kröfuhöfum slitabúanna verði tryggð útganga úr gjaldeyrishöftunum með mjög lágum tilkostnaði.“
InDefence segir að ólikt því sem myndi gerast við álagningu stöðugleikaskatts muni erlendir kröfuhafar fá að taka yfir 500 milljarða króna út úr íslensku hagkerfi á næstu árum. „Þar sem lífskjör almennings eru beintengd gjaldeyrisöflun þjóðarinnar er ljóst stöðugleikaskilyrðin munu skerða lífskjör hérlendis. Hér er um verulegar upphæðir að ræða, sem svara til nánast alls vöruútflutnings frá Íslandi árið 2014, nálægt tvöföldu virði Landsvirkjunar skv. mati fjármálaráðherra í ársbyrjun 2013 og 50 sinnum hærri upphæðar en lífeyrissjóðunum var leyft að fara með úr landi á þessu ári. Það er því rangt að fullyrða að stöðugleikaskatturinn og stöðugleikaframlagið séu jafngildar leiðir út frá hagsmunum heimila landsins.“
Hópurinn telur að hagsmunir almennings séu ekki settir í forgang í þeirri lausn sem nú er unnið að varðandi losun hafta. Hún feli í sér að erlendum kröfuhöfum verði hleypt úr höftum án þess að búið sé að tryggja með nokkrum hætti afléttingu hafta á almenning. „InDefence-hópurinn óttast að talsverð hætta sé á því að svigrúm til að aflétta höftum á almenning verði lítið næstu árum, bæði vegna aukinnar neyslu en einnig vegna mikillar fjárfestingarþörf lífeyrissjóða erlendis.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði við þessari hættu í síðustu stöðuskýrslu sjóðsins um Ísland en þar er bent á að það séu komnar miklar væntingar um hratt afnám gjaldeyrishafta á almenning. Á sama tíma sýni greiðslujafnaðargreining sjóðsins að svigrúmið til afléttingar sé takmarkað m.a. vegna mikilla launahækkana á vinnumarkaði. Það liggur því fyrir viðvörun frá IMF um greiðslujöfnuð þjóðarinnar og eykur það enn á mikilvægi þess að Seðlabankinn skoði þennan þátt af fullri alvöru samhliða mati á stöðugleikaframlögunum.“
Funduðu með Má Guðmundssyni
Í lok síðasta mánaðar sendi InDefence Seðlabanka Íslands bréf og krafðist þess að bankinn birti samstundis stöðugleikaskilyrðin sem slitabúin ættu að mæta. Már Guðmundsson seðlabankastjóri svaraði bréfi hópsins skömmu síðar og sagði að skilyrðin hefðu þegar verið birt og að nauðasamningsdrög sem slitabúin hefðu lagt fram uppfylltu þau í stórum dráttum. Í kjölfar svarbréfsins fundaði Már með fulltrúum hópsins. Sá fundur fór fram síðastliðinn föstudag.
Í bréfi InDefence til efnahags- og viðskiptanefndar segir að á þeim fundi hafi verið rætt „almennt um birtingu upplýsinga og m.a. beðið um að greiðslujafnaðargreiningin, sem notuð verður við stöðugleikamat Seðlabankans, verði birt. Á fundinum kom hins vegar fram að slík greining lægi ekki fyrir.“
Í kjölfarið hafi InDefence beðið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að framkvæma slíka greiningu og að hann búist við því að slík greining verði uppfærð á næstu vikum. Hópurinn mun einnig ítreka beiðni sína til Seðlabankans og biðja þar að auki um að gerð verði langtíma greiðslujafnaðargreining.
Í bréfinu stendur: að InDefence hópurinn lýsi yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð Seðlabanka Íslands í málinu. „Ekki hefur verið staðið við loforð um opið og gagnsætt ferli og er það mat hópsins að ekki megi ganga frá stöðugleikamati fyrr en greiðslujafnaðargreining liggur fyrir. Án slíkrar greiningar verður ekki séð að staðið sé við loforð stjórnvalda um að heimilin verði sett í forgang. Við hvetjum Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis eindregið til að biðja Seðlabanka Íslands um slíka greiningu, svo að þingmenn geti betur metið afleiðingar þeirra aðgerða sem felast í stöðugleikaframlögum og stöðugleikaskatti.“
Seðlabanki Íslands ætlaði að opinbera mat á tillögum um aðgerðir og greiðslu stöðugleikaframlags sem uppfylla ætti stt stöðugleikaskilyrði stjórnvalda á kynningarfundi í dag. Fundinum var hins vegar frestað á síðustu stundu. Í tilkynningu frá Seðlabankanum sagði að tímasetningin hefði reynst „óheppileg í ljósi þess að ekki hefur tekist að ljúka því samráðs- og kynningarferli sem reiknað var með að yrði lokið áður en ritið yrði birt.“