InDefence-hópurinn segir að margt bendi til þess að undirtektir Más Guðmundssonar seðlabankastjóra um gagnsæi varðandi afnámsferli fjármagnshafta séu "fyrst og fremst í orði en ekki í verki". Hópurinn segir einnig að honum sýnist að ekki hafi verið gerð greiðslujafnaðargreining í tengslum við mat á stöðugleikaskilyrðum, hvorki fyrir stöðugleikaframlög né stöðugleikaskatt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi sem hópurinn sendi til Más klukkan 15:59 í dag sem viðbragð við svarbréfi hans til hópsins þann 29. september.
Þar segir einnig: "Tillögur slitabúa gömlu bankanna um stöðugleikaframlög tryggja það að krónubréfaeigendum og kröfuhöfum slitabúanna verði hleypt út úr höftum með allt að 500 ma.kr. í erlendum gjaldeyri á næstu 7-10 árum. Ef kröfuhafar fá að taka of mikinn gjaldeyri út úr landinu, þá sitja Íslendingar eftir með verðbólguþrýsting innanlands, með tilheyrandi áhrifum á verðlag og verðtryggðar skuldir almennings og þar með skert lífskjör." Seðlabankinn þurfi að upplýsa um þær ráðstafanir sem hafi verið gerðar til að forða heimilum og fyrirtækjum frá "frekari aðlögun" þegar búið er að hleypa kröfuhöfum slitabúanna og krónubréfaeigendum út með þá upphæð. "Það væri óásættanlegt að kröfuhafar og krónubréfaeigendur komist út með stórar fjárhæðir ef almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir á Íslandi sitja eftir í höftum til margra ára".
Bréfaskriftir í september
Í lok síðasta mánaðar sendi InDefence Seðlabanka Íslands bréf og krafðist þess að bankinn birti samstundis stöðugleikaskilyrðin sem slitabúin ættu að mæta. Már Guðmundsson seðlabankastjóri svaraði bréfi hópsins skömmu síðar og sagði að skilyrðin hefðu þegar verið birt og að nauðasamningsdrög sem slitabúin hefðu lagt fram uppfylltu þau í stórum dráttum. Í kjölfar svarbréfsins fundaði Már með fulltrúum hópsins.
Í dag sendi InDefence svo nýtt bréf til Más.
Hægt er að lesa það í heild sinni hér að neðan.
Reykjavík, 16. október 2015
Seðlabanki Íslands
Hr. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Kalkofnsvegi
150 Reykjavík
Efni:
Aflétting fjármagnshafta á almenning
InDefence hópurinn þakkar svarbréf þitt, dags. 29. september s.l. og fund sem hópurinn átti með þér þann 2. október s.l. varðandi afnámsferli fjármagnshafta. Við fögnum því að þú takir undir það "sjónarmið hópsins að hér sé um að ræða málefni sem varðar allan almenning og því eðlilegt að um það gildi eins mikið gagnsæi og mögulegt er". Slíkt er enda í samræmi við efnahagstefnu stjórnvalda um losun fjármagnshafta, sem felur í sér "heildstæða lausn... sem setur almannahagsmuni í forgang og byggist á gagnsæi og viðurkenndri aðferðafræði". Því miður bendir margt til þess að undirtektir þínar séu fyrst og fremst í orði en ekki í verki.
Gagnsætt ferli?
InDefence hópurinn hefur kynnt sér allar þær upplýsingar sem eru aðgengilegar almenningi um afnám gjaldeyrishafta. Þessar upplýsingar duga ekki til þess að hægt sé að leggja mat á forsendur og afleiðingar stöðugleikaframlaga slitabúanna, og því uppfylla þær ekki loforð um gagnsæi ferlisins. Í svarbréfi þínu til InDefence hópsins segir um forsendur stöðuleikaskilyrðanna: “i) gerðar verði ráðstafanir sem dragi nægilega úr neikvæðum áhrifum af útgreiðslum andvirðis eigna í íslenskum krónum, ii) að öðrum innlendum eignum fallinna fjármálafyrirtækja í erlendum gjaldeyri verði breytt í langtímafjármögnun að því marki sem þörf krefur" (feitletrun okkar). Orðalag verður varla óljósara en þetta. Annað hvort hefur Seðlabankinn ekki útfært stöðugleikaskilyrðinn á skýrari og áþreifanlegri hátt en þetta eða hann vill ekki upplýsa um slíka útfærslu. Hvorugt er í samræmi við efnahagsstefnu stjórnvalda eða hæfandi fyrir Seðlabanka Íslands.
Greiðslujafnaðargreining og almannahagsmunir
Af bréfi þínu og fundinum má dæma að ekki hafi verið gerð greiðslujafnaðargreining í tengslum við mat á stöðugleikaskilyrðum, hvorki fyrir stöðugleikaframlög né stöðugleikaskatt. Þetta er verulegt áhyggjuefni. Slík greining á flæði gjaldmiðla til og frá landinu er viðurkennd aðferðafræði og hefur m.a. verið notuð af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) til að meta svigrúm til afléttingar fjármagnshafta hérlendis. Í skýrslu sinni frá júní 2015 varaði AGS við því í að svigrúm til losunar hafta á Íslandi er takmarkað á sama tíma og væntingar um skjótan framgang afnámsferilsins væru miklar. Tillögur slitabúa gömlu bankanna um stöðugleikaframlög tryggja það að krónubréfaeigendum og kröfuhöfum slitabúanna verði hleypt út úr höftum með allt að 500 ma.kr. í erlendum gjaldeyri á næstu 7-10 árum. Ef kröfuhafar fá að taka of mikinn gjaldeyri út úr landinu, þá sitja Íslendingar eftir með verðbólguþrýsting innanlands, með tilheyrandi áhrifum á verðlag og verðtryggðar skuldir almennings og þar með skert lífskjör.
Hvenær verður höftum létt af almenningi?
Án þess að fyrir liggi greiðslujafnaðagreining er alls óvíst um örlög almennings, fyrirtækja og lífeyrissjóða á Íslandi. Hér duga ekki óljósar bjartsýnisspár og óskhyggja. Hér þarf fagleg og vönduð vinnubrögð af hálfu Seðlabankans, sem taka mið af ytri áhættum þjóðarbúsins. Samkvæmt kynningu stjórnvalda átti haftaafnámsferlið að vera "grundvallað á hagsmunum heimila og fyrirtækja enda er það skilyrði aðgerðanna að raunhagkerfið taki ekki út frekari aðlögun en þegar er orðin“. Í ljósi þessa þarf Seðlabankinn að upplýsa um þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar til að forða heimilum og fyrirtækjum frá "frekari aðlögun" þegar búið er að hleypa kröfuhöfum slitabúanna og krónubréfaeigendum út með allt að 500 ma.kr. í gjaldeyri. Það væri óásættanlegt að kröfuhafar og krónubréfaeigendur komist út með stórar fjárhæðir ef almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir á Íslandi sitja eftir í höftum til margra ára.
Í samræmi við stefnu stjórnvalda um "heildstæða lausn... sem setur almannahagsmuni í forgang og byggist á gagnsæi og viðurkenndri aðferðafræði", förum við fram á að Seðlabankinn leggi fram ítarlega greiðslujafnaðargreiningu, bæði fyrir sviðsmynd stöðugleikaframlaga og stöðugleikaskatts, sem sýnir hvaða svigrúm er til að létta fjármagnshöftum af almenningi, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum á Íslandi. Einnig biðjum við um tímaáætlun sem sýnir hvernig og hvenær það verður gert.
Virðingarfyllst
F.h. InDefence hópsins
Dr. Agnar Helgason, mannfræðingur
Davíð Blöndal, eðlis- og tölvunarfræðingur
Ólafur Elíasson, MBA
Ragnar Ólafsson, félagssálfræðingur Dr.
Torfi Þórhallsson, verkfræðingur Dr.
Sveinn Valfells, eðlis- og hagfræðingur