„Mikið óskaplega getur pólitísk umræða verið lágkúruleg,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, á Facebook síðu sinni í kvöld, og vitnar þar til umræðu um formannsframboð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingkonu flokksins, gegn sitjandi formanni Árna Páli Árnasyni, á landsfundi flokksins um liðna helgi. Árni Páll var kjörinn formaður með minnsta mögulega mun á fundinum, 241 atkvæði gegn 240 atkvæðum Sigríðar Ingibjargar.
Ingibjörg Sólrún segir að fylgisfólki Sigríðar Ingibjargar hafi mislíkað skoðun hennar, sem hún viðraði á Facebook síðu sinni, og við það sé ekkert að athuga. Hins vegar sé full ástæða til að gera athugasemd við ómerkilegan fréttaflutning DV. „Ég leyfði mér að hafa málefnalega skoðun á því hvernig staðið var að framboði Sigríðar Ingibjargar (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) en sagði að öðru leyti ekkert um framboðið. Hennar fylgisfólki mislíkaði þessi skoðun mín og ég hef ekkert við það að athuga. Það er hins vegar full ástæða til að gera athugasemd við ómerkilegan fréttaflutning DV ( Jóhann Hauksson) sem spyrðir ábendingar mínar og stóryrði Sighvats Björgvinssonar saman og segir m.a.: ,,Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Sighvatur Björgvinsson hafa metið það svo að framboð Sigríðar Ingibjargar hafi verið óleikur á stundu þegar margt sé í húfi fyrir Samfylkinguna.“ Hvað gengur Jóhanni til með svona tilbúningi?“ spyr Ingibjörg Sólrún, og grípur einnig orð Sigríðar Ingibjargar, um skrif Ingibjargar og Sighvats Björgvinssonar, á lofti. „Sigríður Ingibjörg hendir þetta á lofti og segir: ,,Ég held raunar að þau séu dálítið eins og holdgervingar gamaldags hugmynda og þess sem er að ýta undir fylgi Pírata...." Hvernig dettur þér í hug að segja svona Sigga?“ segir formaðurinn fyrrverandi.