Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum borgarstjóri, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir þá sem séu í íslenskum stjórnmálum skulda kjósendum sínum að standa fyrir upplýstri pólitískri umræðu og reyna að koma hugsjónum og hugmyndum á framfæri við umbjóðendur sína.
Hún segir það mikla einföldun að halda að vandi Samfylkingarinnar liggi einungis í formanni flokksins. „Vandinn er talsvert dýpri og útheimtir heiðarlega greiningu en ekki upphrópanir og aftökur“. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Morgunblaðinu í dag.
Þar talar Ingibjörg einnig um nýlegan formannsslag innan Samfylkingarinnar, þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir bauð sig fram gegn Árna Páli Árnasyni sólarhring fyrir formannskjörið. Vegna tímasetningarinnar voru einungis þeir sem sátu landsfund flokksins, á fimmta hundrað manns, með atkvæðisrétt. Árni Páll hafði hins vegar verið kosinn tveimur árum áður með á fjórða þúsund atkvæðum í allsherjaratkvæðagreiðslu.
Ingibjörg segir formannsframboð Sigríðar Ingibjargar hafa verið á skjön við lýðræðislega aðferð til að kjósa flokksformann. „Þetta var eiginlega að stytta sér leið að formannsframboði, sem mér finnst ekki til fyrirmyndar. Ef Sigríður hefði unnið formannskjörið með einu atkvæði, en ekki Árni, hefðu bæði hún sjálf og flokkurinn verið í miklum vanda.“
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir formannsframboð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur hafa verið á skjön við lýðræðislega aðferð til að kjósa flokksformann. „þetta var eiginlega að stytta sér leið að formannsframboði, sem mér finnst ekki til fyrirmyndar. Ef Sigríður hefði unnið formannskjörið með einu atkvæði, en ekki Árni, hefðu bæði hún sjálf og flokkurinn verið í miklum vanda.“
Landsdómsmálið pólitísk aðför að einstaklingi
Ingibjörg segir Landsdómsréttarhöldin yfir Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, hafa verið alvarleg mistök. Þau hafi engu skilað en kynt undir pólitískri heift og átökum. „Ýmsum finnst að ég hefði líka átt að fara fyrir Landsdóm, þrátt fyrir niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar um að ég hefði ekki brotið af mér í starfi, en það hefði ekki gert málið neitt betra. Þessi ákæra var byggð á mjög veikum lagagrunni og þess vegna var þetta dómsmál réttarfarslega og siðferðilega rangt. Að auki var þetta pólitískt rangt vegna þess að tækifærinu til að gera upp við þá pólitík sem leiddi til hruns var glutrað niður af fólki sem sást ekki fyrir[...]Málið varð að pólitískri aðför að einstaklingi. Í stað þess að við gerðum upp við hrunið, og þá fjölmörgu aðila sem áttu þátt í að móta þá pólitík og það kerfi sem á endanum hrundi, var allur fókusinn settur á þá einstaklinga sem voru í ríkisstjórn síðustu mánuðina fyrir hrunið.“
Hún telur að miklu fremur hefði átt að setja upp einhvers konar sannleiks- og sáttarnefnd. Nú sé tækifærið hins vegar glatað og orðið of seint að gera upp við hrunið á réttan hátt.
Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, sat einn á sakamannabekk í Landsdómsmálinu.
Ekki á leið aftur í pólitík
Ingibjörg segist búin með sinn skammt af íslenskri pólitík og ætli sér ekki aftur í hana. Hún hætti alfarið 2009 og sér ekki eftir því. Segir raunar vera „fegin að vera fjarri þessum illúðlegu átökum sem mér finnst einkenna stjórnmálaumræðuna. Það mætti ætla, eins og umræðan á Íslandi er orðin í dag, að margir íslenskir stjórnmálamenn myndu vilja skipta og vera frekar í Afganistan eða Úkraínu.“
Nýverið fór af stað hópur á Facebook sem skoraði á hana að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands á næsta ári. Ingibjörg telur uppátækið undarlegt og tekur framboðið ekki í mál. Henni langar ekki til að lifa lífinu aftur sem opinber persóna. Því fylgir afsláttur af lífsgæðum. „Vandamálið er að við erum með stjórnarskrárferli í upplausn og starfslýsingin liggur ekki skýrt fyrir. Við eigum marga frambærilega einstaklinga en það er ekki hægt að segja hver hentar best í embættið því að mjög ólíkar hugmyndir eru meðal fólks um hvert eigi að vera hlutverk forseta Íslands. Ef aðalatriðið er að tala erlend tungumál og koma vel fyrir eru ófáir sem koma til greina, en það hangir meira á spýtunni þó að ekki sé alveg ljóst á þessum tímapunkti hvað það er nákvæmlega. Ég held að það sé ekki hægt að slá því á frest að ræða inntak forsetaembættisins en því miður virðist engin sátt ríkja um það embætti frekar en aðrar stofnanir samfélagsins.“