Einungis 43 prósent Bandaríkjamanna undir þrítugu eru „mjög stolt“ af þjóðerni sínu, samkvæmt nýrri Gallup könnun. Þá eru aðeins 53 prósent aðspurðra í öllum aldursflokkum mjög stolt af því að vera Bandaríkjamenn samkvæmt könnuninni. Það er lægsta hlutfall „mjög stoltra“ Bandaríkjamanna frá því að Gallup hleypti slíkri könnun af stokkunum, en það var árið 2001 í lok síðara kjörtímabils Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Fréttamiðillinn Quartz greinir frá málinu.
Eftir hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnanna í New York þann 11. september árið 2009, í tíð George W. Bush þáverandi forseta Bandaríkjanna, fór þjóðarsolt landa hans í hæstu hæðir eftir að Bandaríkjaher réðst inn í Írak. Um það leyti, eða árið 2003, sögðu 70 prósent aðspurðra að þau væru mjög stolt af því að vera Bandaríkjamenn. Frá því að Barack Obama settist á stól Bandaríkjaforseta hefur hlutfall „mjög stoltra“ Bandaríkjamanna verið tæplega 60 prósent og farið minnkandi.
Mjög stoltir ekki mjög stoltir lengur
Minnkandi hlutfall „mjög stoltra“ Bandaríkjamanna skýrist einkum af því eldri kynslóðin, ekki síst frá Suðurríkjum Bandaríkjanna, og Repúblikanar eru líklegastir til að segjast vera mjög stoltir af þjóðerni sínu. Þessi hópur hefur nú búið við forseta sem hefur ekki sömu pólitísku skoðanir og hann.
Þá er talið að frjálslyndir, og ekki síst ungir kjósendur, séu mjög uggandi vegna ítrekaðra atvika þar sem laganna verðir hafa myrt þeldökka á síðustu árum. Sá hópur veltir vöngum yfir því hversu langt samfélagið sé komið í baráttunni gegn kynþáttamismunun, þrátt fyrir að hafa þeldökkan forseta í Hvíta húsinu.
Flöktandi stærð
Að því sögðu, skal geta þess að umrædd Gallup skoðanakönnun var framkvæmd í byrjun júní, eða skömmu eftir ákvarðanir Hæstaréttar Bandaríkjanna um að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra og standa vörð um heilbrigðisáætlun Barack Obama, hina svokölluðu Obamacare. Vel má vera að tíðindin kunni að hafa ýtt undir þjóðernisstolt Bandaríkjamanna tímabundið. Þá var skoðanakönnunin til að mynda framkvæmd fyrir voðaverkin í Charlestone þar sem níu svartir kirkjugestir voru myrtir með köldu blóði.
Gallup bendir á að þjóðernisstolt sé ekki ráðandi persónueinkenni, heldur flökti til og frá með hliðsjón af kringumstæðum hverju sinni. Það fari jafnan upp á við á erfiðum tímum, eins og eftir hryðjuverkin 9. september árið 2001, og í aðdraganda stríðanna í Afganistan og Írak.
Af þeim 53 prósentum aðspurðra í könnun Gallup, sem sögðust mjög stolt af þjóðerni sínu, eru 64 prósent þeirra eldri borgarar og 61 prósent eru frá Suðurríkjum Bandaríkjanna. Þá er hlutfall „mjög stoltra“ Bandaríkjamanna lægst í vesturríkjum Bandaríkjanna, eða 46 prósent.
Þá eru 47 prósent Demókrata mjög stolt af þjóðerni sínu, á móti 68 prósentum Repúblikana.