Mannréttindadómstóll Evrópu hefur nú þrívegis komist að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur Íslands hafi verið í ruglinu þegar hann dæmdi blaðakonuna Erlu Hlynsdóttur fyrir meiðyrði. Ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrisvar. Niðurstaða dómstólsins er mikið fagnaðarefni fyrir frelsi íslenskrar fjölmiðlunar og skiptir mun meira máli en flestir átta sig á.
Erla hefur hins vegar þurft að treysta á velvilja annarra í þessari baráttu sinni. Málarekstur fyrir Mannréttindadómstólnum kostar mikið fé og ekki er hægt að sækja um gjafsókn. Blaðamannafélag Íslands ákvað að styrkja málskostnaðinn af fyrsta málinu en stærstan hluta vinnunar í málunum þremur hafa lögmenn hennar unnið ókeypis. Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Erlu, sagði í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í gær að tvívegis hafi verið óskað eftir því að ríkið styrkti Erlu í þessum mikilvæga málarekstri hennar. Í annað skiptið hafi erindinu ekki verið svarað og í hitt skiptið, haustið 2014, hafi beiðninni verið hafnað á þeim grundvelli að það væru ekki til peningar í ráðuneytinu til þess að styrkja málareksturinn.
Þetta svar vekur athygli. Á sama tíma, haustið 2014, greiddi innanríkisráðuneytið til dæmis 850 þúsund króna lögfræðikostnað vegna lekamálsins svokallaða, til að kanna hvort aðstoðarmenn ráðherra og fleiri gætu höfðað meiðyrðamál vegna umfjöllunar fjölmiðla um málið. Eins og alþjóð veit leiddi umfjöllun fjölmiðla um lekamálið á endanum til þess að einn aðstoðarmaður innanríkisráðherra hlaut skilorðsbundinn dóm og ráðherrann sjálfur þurfti að segja af sér embætti eftir að hafa sýnt af sér fordæmalausa valdníðslutilburði til að reyna að þagga málið niður.
Þessu til viðbótar greiddi lögreglan á höfuðborgarsvæði alls 679 þúsund krónur vegna ráðgjafar til almannatengslafyrirtækis vegna lekamálsins, en lögreglustjóri embættisins lenti í miklum vandræðum vegna tengsla sinna við málið. Sú þjónusta sem lögreglan, undirstofnun innanríkisráðuneytisins keypti, var því til að hjálpa einstaklingi í valdastöðu við að verja sig persónulega, ekki embættið sjálft.
Það er fullt tilefni til þess að spyrja sig hvort forgangsröðun á eyðslu peninga innanríkisráðuneytisins, sem eru að sögn þess að skornum skammti, sé ásættanleg.