Innanríkisráðuneytið hefur hafnað beiðni Kjarnans um gögn varðandi lekamálið svokallaða, þar sem meðferð hennar þykir of tímafrek eða mannaflsfrek.
Kjarninn sendi innanríkisráðuneytinu fyrirspurn fyrir rúmum mánuði síðan, nánar tiltekið þann 2. febrúar síðastliðinn, þar sem farið var fram á afhendingu á öllum kvittunum, álitsgerðum og tölvupóstsamskiptum í tengslum við lögfræði- og almannatengslaráðgjöf sem fyrrverandi ráðherra eða ráðuneytið leitaði eftir í tengslum við lekamálið svokallaða. Í fyrirspurn Kjarnans var vísað til upplýsingalaga.
Í svari innanríkisráðuneytisins sem barst Kjarnanum í dag, eftir ítrekaðar óskir um að erindi Kjarnans yrði svarað, segir að umbeðin gögn séu ekki aðgengileg og samantekt þeirra útheimti umtalsverða vinnu í ráðuneytinu.
Innanríkisráðuneytið hafnar að verða við beiðni Kjarnans um gögn, með vísan til upplýsingalaga þar sem kveðið er á um að beiðni megi í undantekningartilfellum hafna ef: „Meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki telst af þeim sökum fært að verða við henni.“
Kjarninn hefur ákveðið að kæra ákvörðun innanríkisráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Að endingu biðst innanríkisráðuneytið velvirðingar á því hversu seint fyrirspurn Kjarnans var svarað.