Brotist var inn í íbúð á efstu hæð skrifstofuhúss við Laugaveg í nótt, en skrifstofur Kjarnans eru þar einnig til húsa. Par, sem býr í íbúðinni, vaknaði upp við innbrotsþjófinn er hann var staddur við svefnherbergi þeirra, en þá hafði þjófurinn athafnað sig inn á heimilinu.
Húseigandinn spratt þá allsnakinn á fætur upp úr rúminu, og tók þá þjófurinn til fótanna. Hófst þá mikill eltingaleikur út úr íbúðinni og niður stigagang hússins, en þjófurinn náði með miklum naumindum að flýja út um útidyrahurð hússins á jarðhæð, rétt áður en húseigandinn náði að hafa hendur í hári hans.
Innbrotsþjófurinn, ungur karlmaður, hafði á brott með sér iPad-spjaldtölvu, iPhone-snjallsíma, þrjú armbandsúr og peninga, en heildarverðmæti munanna nemur um einni milljón króna.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að viðgerðum á húsinu og ljóst er að þjófurinn hefur nýtt sér vinnupalla til að athuga með opna glugga á húsinu. Húseigandinn hefur í þrígang tilkynnt lögreglu um grunsamlegar mannaferðir í vinnupöllunum að næturlagi.
Rannsóknardeild lögreglunnar fer með rannsókn málsins.