Lífeyrissjóðirnir áttu innlend hlutabréf og hlutdeildarskírteini fyrir 1.110,4 milljarða króna í lok ágúst síðastliðins. Frá áramótum hefur virði slíkra eigna sjóðanna aukist um 28,2 prósent og vaxið úr 866,1 milljörðum króna. Frá ágúst 2020 hefur virði hlutabréfa og hlutdeildarskírteina í eigu sjóðanna vaxið um 393,8 milljarða króna, eða um 54,9 prósent.
Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um eignir lífeyrissjóða.
Vert er að taka fram að inngreiðslur á iðgjöldum í lífeyrissjóðina geta ratað í ný hlutabréfakaup auk þess sem stór hlutafjárútboð hafa farið fram þar sem nýtt hlutafé í íslenskum félögum hefur verið seld. Ber þar helst að nefna hlutafjárútboð í Icelandair Group í fyrra og nýskráningu Síldarvinnslunnar og Íslandsbanka á markað fyrr á þessu ári. Þá var flugfélagið Play skráð á First North markaðinn í ár.
Eiga meira en tvöfalt meira í innlendum hlutabréfum en fyrir hrun
Þetta er langmesta hækkun sem orðið hefur á hlutabréfum í eigu íslensku lífeyrissjóðanna milli ára í krónum talið og hlutfallslega sú mesta.
Til samanburðar má nefna að þegar fyrirhrunseign sjóðanna í skráðum íslenskum félögum reis sem hæst, um mitt ár 2007, stóð hún í 470 milljörðum króna, en fór niður í 108 milljarða króna um ári eftir bankahrunið.
Íslenskir lífeyrissjóðir eru saman langstærstu eigendur þeirra félaga sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað. Saman eiga þeir, beint og óbeint í gegnum hlutdeildarskírteini í sjóðum, um helming allra skráðra bréfa.
Erlend ávöxtun einnig mikil
Erlendar eignir íslensku lífeyrissjóðanna hafa líka bólgnað út á tímum kórónuveirunnar. Virði þeirra er nú 2.257,6 milljarðar króna og hefur aukist um 406,3 milljarða króna milli ára. Nánast öll erlend eign lífeyrissjóða, alls 2.196 milljarðar króna, er bundin í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, og því kemur ekki á óvart að sá eignarflokkur sé ábyrgur fyrir nær allri virðisaukningunni sem orðið hefur á erlendum eignum íslensku lífeyrissjóðanna frá því í ágúst í fyrra, eða 94 prósent hennar.