Bein fjármunaeign Íslendinga erlendis dróst saman um tæpa sjö milljarða króna á síðasta ári og var 675,6 milljarðar króna. Það er í fyrsta sinn síðan að höftum var aflétt árið 2017 sem fjármunaeign innlendra aðila erlendis dregst saman milli ára. Frá lokum þess árs hefur hún þó aukist um 125,5 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýbirtum hagtölum Seðlabanka Íslands.
Að uppistöðu er um eigið fé að ræða, alls 563,1 milljarðar króna, en útistandandi lán innlendra aðila til erlendra eru 112,5 milljarðar króna. Því var 83,3 prósent af eignum Íslendinga erlendis eigið fé og sá stabbi stækkaði um 37,5 milljarða króna á síðasta ári. Á móti lækkuðu útistandandi lán innlendra aðila til erlendra um 44,5 milljarða króna. Ekki er óvarlegt að ætla að hluti þeirra lána hið minnsta sé milli tengdra aðila.
Mestar eru eignirnar sem tengdar eru fjármálastarfsemi, alls 311 milljarðar króna.
Bein fjármunaeign innlendra aðila erlendis er órafjarri því sem hún var árið 2007, en þá áttu Íslendingar uppgefið 1.554 milljarða króna utan landsteinanna. Umfang fjármunaeignar Íslendinga erlendis um síðustu áramót var því 43,4 prósent af þeirri upphæð.
Fjármunaeignin óx tímabundið eftir bankahrun, aðallega vegna erlendra eigna þrotabúa föllnu bankanna, hafta á Íslandi sem komu í veg fyrir að kröfuhafar þeirra greiddu sér þær eignir út og veikrar krónu gagnvart helstu viðskiptamyntum. Í árslok 2012 stór beina fjármunaeign innlendra aðila erlendis í 1.587 milljörðum króna. Um helmingur þeirra eigna var vegna fjármálastarfsemi.
Mest í Hollandi
Mestar eru uppgefnar fjármunaeignir Íslendinga í Hollandi, en þar eiga innlendir aðilar alls tæplega 379 milljarða króna. Þær drógust saman um 17,5 milljarða króna á síðasta ári. Megnið af því fé er í eignarhaldsfélögum samkvæmt samantekt Seðlabanka Íslands.
Uppgefnar eignir landsmanna á þekktum aflandseyjum hafa dregist mikið saman á undanförnum árum. Þannig er fjármunaeign innlendra aðila á Bresku Jómfrúareyjunum, sem inniheldur með annars Tortóla, sögð vera krónur núll, sem er 22 milljónum krónum minna en Íslendingar áttu þar í árslok 2020. Í árslok 2015 voru 32 milljarðar króna í eigu Íslendinga sagðir vera vistaðir í eyjaklasanum.
Sá hluti fjármuna Íslendinga erlendis sem eru óflokkaðir hefur margfaldast á nokkrum árum. Í lok árs 2017 var hann metinn á tæpa 25 milljarða króna en um síðustu áramót var sú upphæð komin upp í 83,1 milljarða króna.
Gengi krónu skiptir miklu máli
Eignir Íslendingar í krónum talið lækkuðu skarpt í útlöndum frá árunum 2016 og 2017. Þar spilaði mikil styrking íslensku krónunnar stóra rullu. Í lok árs 2017 hafði fjármunaeign innlendra aðila í krónum talið ekki verið lægri frá árinu 2004.
Síðustu ára hefur þetta breyst og á tveggja ára tímabili, frá lokum árs 2017 og fram til lok árs 2019, jukust eignirnar í krónum talið um 97,3 milljarða króna. Það gerðist á sama tíma og íslenska krónan veiktist umtalsvert, og jók þannig krónuvirði helstu viðskiptagjaldmiðla.
Skráningu á erlendri fjármunaeign Íslendinga var breytt fyrir nokkrum árum síðan. Nú eru gefnar upplýsingar um eign í færri löndum en áður en flokkurinn „óflokkað“ hefur stækkað. Áður var hægt að sjá til að mynda hver bein fjármunaeign Íslendinga er á Cayman-eyjum, Mön, Jersey, Guernsey og Máritíus. Það er ekki hægt lengur.
Líkt og áður sagði var „óflokkuð“ bein fjármunaeign Íslendinga rúmlega 83,1 milljarðar króna í lok árs 2021.
Íslendingar voru stórtækir í eignarhaldi á aflandsfélögum
Erlend fjármunaeign Íslendinga var mjög í kastljósi heimsins vorið 2016 í kjölfar frétta úr gagnaleka frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem gerður var opinber í apríl 2016.
Í þeim kom fram að um 600 Íslendingar tengdust um 800 aflandsfélögum sem koma fram í skjölunum. Fyrir liggur að mestu er um að ræða viðskiptavini Landsbanka Íslands sem stunduðu aflandsviðskipti. Ekki liggur fyrir hvaða milligönguliði Kaupþing og Glitnir notuðu, en samkvæmt viðmælendum Kjarnans sem þekktu vel til í starfsemi íslensku bankanna fyrir hrun er ljóst að fjöldi aflandsfélaga sem stofnuð voru fyrir íslenska viðskiptavini eru mörg þúsund talsins. Því sýndi lekinn frá Mossack Fonseca ekki nema brot af þeim aflandsfélögum sem þeir áttu, og eiga mögulega enn. Enn sem komið er hafa ekki komið fram upplýsingar um Íslendinga í nýjum leka, hinum svokölluðu Pandora-skjölum, en samstarfsaðilar alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna (ICIJ) hérlendis, Reykjavik Media og Stundin, hafa boðað birtingu úr þeim gögnum á föstudag.
Líklegt verður að teljast, að hluti þeirra eigna sem íslenskir ríkisborgarar hafa komið fyrir í þekktum skattaskjólum, séu ekki inni í þeim tölum yfir erlendar fjármunaeignir innlendra aðila sem Seðlabankinn birtir. Tilgangur þess að stofna félag í skattaskjóli er enda fyrst og síðast talinn annar af tveimur: að komast undan skattgreiðslum eða til að leyna tilvist eignar frá einhverjum.
Haustið 2019 hafði embætti skattrannsóknarstjóra, sem er ekki lengur til sem sjálfstæð stofnun, lokið rannsókn í alls 96 málum sem eiga uppruna sinn í Panamaskjölunum. Af þeim höfðu alls 64 málum verið vísað til refsimeðferðar hjá héraðssaksóknara, farið hafði verið fram á sektarkröfu fyrir yfirskattanefnd í 17 málum, refsimeðferð í tveimur málum var lokið með sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra og ekki var hlutast til um refsimeðferð í 13 málum.