OMXI8 úrvalsvísitalan í Kauphöllinni hækkaði um 0,5 prósent í dag. Ólíkt þróun helstu hlutabréfavísitalna í Evrópu, þá vann úrvalsvísitalan hérlendis ekki upp lækkun gærdagsins að sama marki og í Evrópu. Í íslensku kauphöllinni nam lækkunin 2,5 prósentum í gær, eftir að hafa lækkað mest um rúmlega fjögur prósent innan dags.
Össur, sem lækkaði mest félaga í gær, hækkaði þó mest skráðra félaga í dag. Alls nam hækkunin um 4,5 prósentum í heldur litlum viðskiptum. Hlutabréf í Fjarskiptum hækkuðum um rúmlega þrjú prósent í um 200 milljóna króna viðskiptum í dag og hlutabréf í Icelandair Group, sem lækkuðu í gær um 2,5 prósent, hækkuðu í dag um 2,4 prósent í 640 milljóna króna viðskiptum.
Þróun hlutabréfaverðs í Kauphöllinni í dag. Grænar tölur víða, eftir lækkanir á virði allra skráðra félaga í gær. pic.twitter.com/SZqcwudsoF
Auglýsing
— Kjarninn (@Kjarninn) August 25, 2015
Í Þýskalandi hækkaði DAX vísitalan um 5,3 prósent í viðskiptum í dag. Í Frakklandi hækkuðu hlutabréf um 4,4 prósent, á Ítalíu um nærri sex prósent, á Spáni um fjögur prósent FTSE 100 vísitalan í London hækkaði um rúmlega þrjú prósent. Í Grikklandi, þar sem hlutabréfamarkaðir hafa átt erfitt uppdráttar undanfarin misseri vegna Grikklandskrísunnar, fóru hlutabréf á flug og hækkaði helsta vísitala markaðarins þar í landi um nærri tíu prósent.
Þrátt fyrir að hlutabréf í Kína hafi lækkað mikið 2. daginn í röð þá smitaðist sá órói ekki til annarra heimsálfa. Við opnun í Evrópu hækkuðu hlutabréf og sama gerðist þegar Bandarískir markaðir opnuðu. Í millitíðinni tilkynnti Seðlabankinn í Kína um stýrivaxtalækkun og tóku fjárfestar fréttunum vel, ef marka má þróun hlutabréfaverðs í dag.