Alþjóðalögreglan Interpol hefur lýst eftir sex mönnum í tengslum við spillingarmál Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA. Tveir mannanna eru fyrrum embættismenn FIFA, þeir Jack Warner og Nicolás Leoz. Hinir fjórir eru stjórnendur stórra fyrirtækja sem tengjast inn í málið, þrír eru frá Argentínu og einn frá Brasilíu.
Það eru þeir Alejandro Burzaco, Hugo Jinkis og Mariano Jinkis frá Argentínu og José Margulies frá Brasilíu. Argentínumennirnir eru stjórnendur í markaðssetningarfyrirtækjum og Brasilíumaðurinn er stjórnandi útsendingarfyrirtækja. Argentínumennirnir eru grunaðir um að hafa borgað yfir 100 milljónir dala í mútur til þess að tryggja sér útsendingar- og auglýsingarétt frá stórmótum í knattspyrnu. Jack Warner er svo frá Trinidad & Tobago og er fyrrverandi varaforseti FIFA auk þess sem hann hefur setið í stjórn og gegnt ýmsum stjórnunarstöðum. Nicolás Leoz er frá Paragvæ og var í stjórn FIFA.
Interpol hefur sett mennina alla á það sem kallast red notice - sem þýðir að handtökuskipun er í gildi á hendur þeim hvert sem þeir fara. Warner og Leoz hafa báðir verið handteknir í heimalöndum sínum, búið er að sleppa Warner og Leoz er í stofufangelsi.
Blatter líka til rannsóknar
Þessar fréttir koma í kjölfar þess að greint var frá því í morgun að saksóknarar og bandaríska alríkislögreglan FBI eru að rannsaka Sepp Blatter, forseta alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, og aðild hans að aragrúa spillingarmála sem upplýst hefur verið um að hafi átt sér stað innan sambandsins. Þetta hafði Reuters-fréttastofan eftir ónafngreindum heimildarmanni.Talsmaður FBI hefur neitað að tjá sig opinberlega um málið. Svissnesk yfirvöld höfðu áður sagt að Blatter væri ekki til rannsóknar.
Blatter, sem hefur verið forseti FIFA frá árinu 1998, tilkynnti óvænt á blaðamannafundi í gær að hann muni hætta sem forseti sambandsins eftir nokkra mánuði. Yfirlýsingin kom sérstaklega á óvart þar sem Blatter, sem er 79 ára, var endurkjörinn í embættið síðastliðinn föstudag. Hann hafði þá staðið af sér gríðarlegan þrýsting frá mörgum af áhrifamestu mönnum knattspyrnuhreyfingarinnar um að stíga til hliðar.