Mótshaldarar Víðavangshlaups ÍR segja í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu íþróttafélagsins rétt í þessu, að bæta þurfi verklag við götuhlaup í ljósi atviks sem varð í hlaupinu á fimmtudaginn þegar sigurvegari hlaupsins, Arnar Pétursson ríkjandi Íslandsmeistari í maraþoni, stytti sér leið á lokasprettinum og náði þar með forskoti á keppinaut sinn Ingvar Hjartarson.
Mótshaldarar hlaupsins ítreka í yfirlýsingu sinni að framkvæmd hlaupsins og merking brautar hafi verið í samræmi við það sem tíðkast hefur hérlendis í sambærilegum hlaupum. Hlaupstjórn ÍR óskaði álits Frjálsíþróttasambands Íslands á atvikinu en þar segir meðal annars:
„Hér er átt við atvik rétt fyrir lok hlaupsins, þegar hlaupari fer yfir umferðareyju, bak við ljósastaur og fer styttri hlaupaleið en aksursleið segir til um og flestir aðrir hlauparar fóru um. Þetta gat verið mikilvægt atriði þar sem annar hlaupari sem var í harðri keppni við hann um sigur í hlaupinu. Síðarnefndi hlauparinn fer aðeins lengri leið út fyrir ljósastaurinn, því náði sá sem stytti sér leið mögulega betra forskoti en ella. Þó er ekki hægt að kveða úr um hvort þessi stytting hafi skipt sköpum um endanlega röð þeirra í mark meðal annars þar sem þeir voru, áður en að þessu atviki kom, því sem næst samsíða. Þá virtist sá hlaupari, sem inn fyrir staurinn fór, vera axlarbreidd á undan og hann var innan á keppninaut sínum, þ.e. hefði farið nær staurnum í beygjunni. Hann hefði því líklega haldið eða bætt við forskot sitt á keppninaut sinn vegna staðsetningar sinnar hvort sem er.
Frjálsíþróttasambandinu er ljóst að reglum þess og IAAF um götuhlaup er ábótavant er varðar eftirlit og með framkvæmd götuhlaupa. Einnig er sambandinu það kunnugt að fræðsla dómara og mótshaldara götuhlaupa hér á landi er líka ábótvant. Ekki eru til reglur t.d. um eftirlit með framkvæmd hlaupa hér á landi.
Þá virðist sem hlaupstjórn VÍR hafi ekki tekið af með afdráttarlausum hætti hvar hlaupaleið var með merkingum eða upplýst brautarvörð hvernig skyldi staðið að gæslu á þeim stað sem um ræðir.
Reglur IAAF taka ekki á merkingum hlaupabrautar en að þær skuli vera greinilegar, en án nánari skilgreiningar. Dómara við götuhlaup ber tafarlaust að vísa keppanda úr leik hann gerist brotlegur við reglur. Slíkt átti sér ekki stað í þessu hlaupi.“
Þá segir í niðurstöðu álits FRÍ: „Lagaleg ábyrgð á þessu atviki getur ekki verið í höndum hlauparans. Hlaupaleið var ekki greinilega afmörkuð eða vörðuð af brautarverði þegar atvikið átti sér stað. Hlauparinn rauf því engar merkingar þegar hann virðist stytta sér leið að markinu. Óvissa um nákvæma staðsetningu hlaupaleiðar og ábyrgð annarra er of mikil til þess. Þá er kærufrestur runninn út skv. reglum IAAF."
Að endingu segir svo í yfirlýsingunni frá ÍR: „Það er miður að atvik sem þetta þurfi til að bæta verklag við götuhlaup. Ábyrgðin liggur hjá mótshöldurum og í umgjörð götuhlaupa en ekki íþróttamanninum og ljóst að kappkostað verður að bæta framkvæmdina í götuhlaupum ÍR í framtíðinni.“