Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair tapaði fyrir nokkrum dögum dómsmáli fyrir dönskum vinnuréttardómstóli. Dómsmálið snerist um það hvort dönskum flugvallastarfsmönnum væri heimilt að efna til vinnustöðvunar í því skyni að neyða Ryanair til að fylgja dönskum lögum um kaup og kjör. Þetta er í fyrsta sinn sem Ryanair tapar slíku máli, stjórnendur þess voru mjög ósáttir við niðurstöðuna og hyggjast fara með málið fyrir dómstól Evrópusambandsins.
Ryanair hóf fyrir nokkrum mánuðum áætlunarflug milli Kaupmannahafnar og nokkurra borga innan Evrópu. Félagið var þó ekki alls ókunnugt dönskum aðstæðum því fyrir fimm árum byrjaði það áætlunarflug milli Billund og vinsælla ferðamannastaða á Ítalíu og Spáni og einnig til Ungverjalands. Í Billund var Ryanair tekið opnum örmum, sem þýddi aukin umsvif og fleiri störf á flugvellinum. Ryanair setti þar upp svokallaða starfsstöð, en í því felst að félagið sjálft er með tiltekna starfsemi á vellinum, en kaupir ekki alla þjónustu af öðrum.
Ein vél í eigu félagsins er með Billund sem heimahöfn, byrjar og endar sínar ferðir þar. Danska alþýðusambandið benti á sínum tíma á að með slíku fyrirkomulagi ætti að greiða samkvæmt dönskum kjarasamningum en í Billund vógu hagsmunirnir af starfsemi Ryanir hærra og þar við sat. Starfsfólk Ryanair í Danmörku var ekki ráðið samkvæmt dönskum kjarasamningum, það er sama fyrirkomulagið og flugfélagið hefur haft víða um lönd. Rök Ryanair hafa ætíð verið þau sömu, félagið sé írskt, skráð á Írlandi og beri þarafleiðandi engin skylda til að hlíta lögum og reglum um kaup og kjör í þeim löndum sem félagið flýgur til og hefur aðra starfsemi. Þetta hefur Ryanair tekist, þangað til núna.
Starfsstöðin Kaupmannahöfn
Síðastliðið haust greindu stjórnendur Ryanair frá því að félagið myndi í mars á þessu ári hefja áætlunarflug milli Kaupmannahafnar og þriggja borga í Evrópu (London, Mílanó og Varsjár) og fljótlega myndu margir fleiri staðir bætast við. Þessi tíðindi mæltust almennt vel fyrir en þegar tilkynnt var að Ryanair hyggðist jafnframt opna starfsstöð á Kastrup var annað upp á teningnum.
Einmanna farþegi á gangi á Kastrup-flugvelli. Mynd: EPA
Þegar að því kom að áætlunarflugið skyldi hefjast, og starfsstöðin var opnuð greip starfsfólk á flugvellinum til aðgerða. Brottför í fyrsta áætlunarfluginu tafðist um marga klukkutíma og ljóst að dönsku launþegasamtökin ætluðu ekki að láta Ryanair ráða ferðinni. Forstjóri Ryanair var sjálfur á staðnum og kvaðst undrandi á viðbrögðum Dana, yfirleitt tæki fólk tveim höndum þeim tækifærum sem byðust til að ferðast ódýrt.
Í Danmörku gilda danskir kjarasamningar, punktur og basta, sögðu verkalýðsleiðtogarnir. Forstjóri flugfélagsins tilkynnti að þar á bæ hefðu menn ekki sagt sitt síðasta orð, félagið myndi leita réttar síns fyrir dómstólum.
Borgaryfirvöld sniðganga Ryanair
Eftir að ljóst var að flugfélagið ætlaði sér í hart tilkynnti yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar að starfsfólk borgarinnar myndi ekki fljúga með Ryanair þegar það ferðaðist vegna vinnunnar. Mörg önnur bæjarfélög fylgdu í kjölfarið og nú eru samtals 22 sveitarfélög sem sniðganga félagið. Mörg sveitarfélög á Jótlandi hafa ekki fylgt sömu stefnu og í Jótlandspóstinum var haft eftir jóskum sveitarstjórnarmanni að slíkt stæði ekki til.
Í Danmörku gilda dönsk lög og danskir kjarasamningar
„Úrskurður danska vinnuréttardómstólsins fyrir nokkrum dögum var okkur mikil vonbrigði og við erum mjög ósáttir við niðurstöðuna,“ sagði Michael O’Leary forstjóri Ryanair á fréttamannafundi í Kaupmannahöfn þegar dómurinn hafði verið kveðinn upp.
Danskir fréttamenn voru mjög aðgangsharðir við forstjórann sem neitaði algjörlega að upplýsa um kaup og kjör starfsfólks. Nefndi tölur en var ekki tilbúinn til að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Benti fréttamönnum á að tala við starfsfólkið en var þá minntur á að því er bannað, að viðlögðum brottrekstri, að tala við fjölmiðla.
Hinn litríki og umdeildi forstjóri Ryanair, Michael O’Leary, á blaðamannafundi með dönskum fréttamönnum. Mynd: EPA
Loka starfsstöðinni í Kaupmannahöfn og kannski líka í Billund
Á áðurnefndum fréttamannafundi tilkynnti Michael O’Leary forstjóri að Ryanair myndi loka starfsstöð sinni í Kaupmannahöfn og gaf í skyn að kannski yrði það líka gert í Billund. Hann sagði jafnframt að áætlunarflug félagsins til Danmerkur yrði eins og búið væri að tilkynna og í lok ársins flýgur Ryanair til að minnsta kosti þrettán áfangastaða frá Kaupmannahöfn og fjögurra frá Billund.
Fordæmið
Þótt Michael O’Leary forstjóri nefndi það ekki eru áhyggjur hans og félagsins ekki bundnar við þennan nýja dóm vinnuréttardómstólsins í Kaupmannahöfn, það hangir nefnilega margt fleira á spýtunni. Félagið er með um fimmtíu starfsstöðvar í Evrópu og þar gæti dómur danska vinnuréttardómstólsins því haft fordæmisgildi.
Þetta veit forstjórinn mætavel. Það verður því fróðlegt að fylgjst með framhaldinu og hvernig dómstóll Evrópusambandsins tekur á málinu komi það til kasta hans.