„Vigdís Hauksdóttir alþingismaður og formaður fjárlaganefndar Alþingis deildi á Facebook síðu sinni grein af bloggsíðunni Fararheill.is og dró af henni ýmsar ályktanir um Isavia. Margar rangfærslur eru í grein Fararheilla sem virðist byggja á annað hvort röngum upplýsingum eða getgátum.“
Svo segir í tilkynningu frá Isavia, sem fyrirtækið birti á vefsíðu sinni síðdegis. Tilefnið er Facebook færsla Vigdísar, sem hún birti í gær, þar sem hún vandaði fyrirtækinu ekki kveðjurnar og deildi um leið grein sem birtist nafnlaus inn á vefsíðunni Fararheill.is, undir fyrirsögninni „Endalaust af hálfvitum í Leifsstöð.“
Umrædd grein hefst á orðunum: „Fólk sem hugsar lítið eða ekkert er óhætt að kalla hálfvita. Það á sannarlega við um stjórnendur Keflavíkurflugvallar sem ættu að sjá sóma sinn í að segja störfum sínum lausum.“
Í greininni eru framkvæmdir í Leifsstöð harðlega gagnrýndar og þær sagðar nær einungis til þess fallnar að þjónka við verslunareigendur. Í sama streng tók Vigdís í áðurnefndri færslu á Facebook og í samtali við Kjarnann gagnrýndi hún forgangsröðun stjórnar Isavia varðandi Leifsstöð, að háum fjármunum hafi verið varið til að fegra verslunarsvæðið, en ekki til að stækka flugstöðina til að þjónusta ferðafólk sem best.
Nauðsynlegar breytingar
Í tilkynningunni frá Isavia er gagnrýni á forgangsröðun fyrirtækisins vísað á bug. „Breytingarnar sem gerðar voru á verslunar- og veitingasvæðinu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru hluti af stærri framkvæmd. Hún fólst í því að stækka öryggisleitarsvæðið umtalsvert, bæta flæði um verslunar- og veitingasvæðið og endurskipuleggja það. Þá voru samningar við rekstraraðila útrunnir og ákveðið að ráðast í valferli um rekstur verslana og veitingastaða. Í valferlinu var meðal annars lagt upp úr því að Isavia fengi sem mestar tekjur af verslunar- og veitingasvæðinu, enda eru þær tekjur nýttar til sjálfbærrar uppbyggingar flugvallarins. Þessar tekur eru því forsenda þess að hægt sé að byggja upp flugvöllinn í takt við farþegafjölgun.“
Þá bendir Isavia á að fyrirtækið hafi reynt að bregðast við stórauknu álagi samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna á síðustu árum. Þvert á móti hafi Isavia meðal annars tvöfaldað afkastagetu farangursflokkunarkerfisins, hafið 5000 fermetra stækkun suðurhluta flugstöðvarinnar, stækkað öryggisleitarsvæðið, fjölgað öryggisleitarvélum, breytt verslunar- og veitingasvæðinu, hafið mikla stækkun komusalarins og fleira, eins og segir í tilkynningunni frá Isavia.
„Það er því alrangt að Isavia hafi ekki unnið að úrbótum eins og fullyrt er í greininni. [...] Isavia er boðið og búið að veita upplýsingar um starfsemina og vill hvetja þá sem hyggjast skrifa um fyrirtækið á vefi og miðla til þess að setja sig í samband ef þá vantar upplýsingar,“ segir þar að lokum.