Jack Dorsey, stofnanda Twitter, og starfsmönnum fyrirtækisins hefur verið hótað lífláti vegna þeirrar afstöðu þess að loka samfélagsmiðlaaðgöngum sem tengjast samtökunum Íslamska ríkið (ISIS). Hótunin var sett fram á sunnudag á vefsíðunni Pastebin. Í henni eru allir jíhadistar heims hvattir til að sameinast í baráttu gegn Twitter.
Samkvæmt frétt BuzzFeed um málið þá hafa stuðningsmenn ISIS verið duglegir að deila hótuninni en ekki er enn búið að komast að því hver það var sem setti hana inn á síðuna.
Með hótuninni, sem er skrifuð á arabísku, er mynd af Dorsey þar sem með skotmarksskífu yfir andliti hans. Twitter-vörumerkið er einnig sýnilegt á myndinni.
Business Insider reyndi að þýða hótunina og segir að þar standi meðal annars að „Jack verði hjálparlaus þegar háls hans verður opinberlega orðin skotmark fyrir hermenn Caliphate og stuðningsmenn sem dreifðir eru á meðal ykkar“. Caliphate vísar til íslamsks stjórnvalds sem stýrt er af Caliph, nokkurs konar eftirmanns Múhameðs spámanns.
Síðar í yfirlýsingunni skrifar höfundur hótunarinnar um „fjölmiðlastríð“ (e. media war) og segir að með því að stöðva ISIS frá því að tvíta skilaboðum sínum sé Twitter að standa í vegi fyrir miðlun hinnar heilögu baráttu samtakanna til umheimsins.