Ísland stendur sig enn verst EFTA-ríkjanna í því að innleiða EES-reglugerðir, samkvæmt nýju frammistöðumati ESA, eftirlitsstofnunar EFTA. Innleiðingarhalli er hlutfall tilskipana sem ekki eru innleiddar á réttum tíma.
Innleiðingarhallinn heldur þó áfram að minnka, og er kominn niður í 2,1%. Markmið stjórnvalda er að þessi halli fari niður fyrir 1%. Í síðasta frammistöðumati ESA var hallinn 2,8% og þarsíðasta, fyrir ári síðan, var hann 3,2%.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að undanfarið hafi verið unnið að því að bæta framkvæmd EES samningsins, á grundvelli Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Ráðuneytið vonast til þess að Ísland bæti stöðu sína enn frekar í næsta frammistöðumati sem verður framkvæmt í lok þessa mánaðar.
Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður í ESA, segir að enn sé langt í land í innleiðinum hjá Íslandi, þrátt fyrir að frammistaðan hafi batnað milli mælinga. „Innleiðing sameiginlegra reglna á réttum tíma er forsenda þess að innri markaðurinn virki vel og áframhaldandi trausts annarra aðila EES-samningsins. Frammistaða Noregs sýnir glöggt að með góðri stefnumörkun og eftirfylgni er hægt að minnka innleiðingarhalla verulega á skömmum tíma. Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að gera enn betur og tryggja að Ísland verði ekki eftirbátur hinna EFTA-ríkjanna,“ segir Helga í tilkynningu frá ESA.