Evrópusambandið hefur fjarlægt Ísland af lista yfir ríki sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu. Nafn Íslands hefur verið að finna á vefsíðu sambandsins yfir umsóknarríki frá því að landið sótti um aðild 2009.
Í mars síðastliðnum afhenti Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands, Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sem fer með formennsku í Evrópusambandinu, og sendi samtímis á Johannes Hahn,framkvæmdastjóra nágrannastefnu og aðildarviðræðna sambandsins, bréf til að afturkalla aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Í bréfinu stóð meðal annars: „„Ríkisstjórn Íslands hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju. Enn fremur yfirtekur þessi nýja stefna hvers kyns skuldbindingar af hálfu fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður.“
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. MYND EPA
Allt varð vitlaust í kjölfarið enda hvorki haft samstarf við utanríkismálanefnd né Alþingi vegna ákvörðunarinnar. Þá telja margir að báðir stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð viðræðnanna áður en þeim yrði slitið.
Í kjölfarið hófst mikil reikistefna um hvort aðildarumsókn Íslands hafi í raun verið dregin til baka eða ekki. Maja Kocijanic, talsmaður framkvæmdastjóra nágrennastefnu og aðildarviðræðna hjá Evrópusambandinu, sagði til að mynda á blaðamannafundi nokkrum dögum eftir bréfasendindunma að umsóknin hefði ekki verið dregin formlega til baka. Stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi sendu í kjölfarið sameiginlegt bréf til stofnana Evrópusambandsins vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að slíta viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Í bréfinu sagði að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi mismunandi skoðanir á aðild að Evrópusambandinu. Flokkarnir séu hins vegar sammála um að bréfið sem Gunnar Bragi Sveinsson sendi geti ekki breytt stöðu Íslands gagnvart sambandinu. Það sé eingöngu á valdi Alþingis að ákveða að breyta stöðu ríkisins.
Gunnar Bragi líkti sendingu bréfs stjórnarandstöðunnar við valdarán.
Sjö þúsund manns mótmæltu ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að slíta viðræðunum með þessum hætti á Austurvelli þann 15. mars síðastliðinn.