Íslenska ríkið hefur verið dregið ellefu sinnum fyrir EFTA-dómstólinn frá því að ríkisstjórn Íslands samþykkti svokallaða Evrópustefnu sína, en einn af fjórum meginmarkmiðum hennar var að á fyrri hluta ársins 2014 yrði "ekkert dómsmál fyrir EFTA dómstólnum vegna skorts á innleiðingu ESS-gerða". Í morgun greindi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) frá því að Íslandi yrði stefnt fyrir EFTA-dómstólinn í tveimur málum vegna þess að stjórnvöld hefðu brugðist þeirri skyldu sinni að innleiða reglur Evrópska efnahagssvæðisins á réttum tíma.
Um þetta er fjallað í frétt á heimasíðu Félags atvinnurekenda. Þar segir að samkvæmt upplýsingum sem félagið hafi aflað sér hjá ESA hafi stofnunin stefnt Íslandi fyrir EFTA-dómstólinn í ellefu málum eftir að Evrópustefnan tók gildi. Fimm slíkar ákvarðanir voru teknar í júlí 2014, tvær í október, tvær í desember og tvær nú í apríl. Það sé því ljóst að þetta markmið stefnunnar er mjög langt frá því að nást.
Í frétta félagsins segir ennfremur: "Annað markmið Evrópustefnunnar er að innleiðingarhallinn svokallaði, þ.e. hlutfall nýrra reglna sem Ísland nær ekki að innleiða á réttum tíma, verði orðinn undir 1% í byrjun árs 2015, en í fyrra var hann ríflega 3%. Sömuleiðis bendir fátt til að það markmið náist. Fjöldi dómsmála fyrir EFTA-dómstólnum er í beinu samhengi við lítinn árangur í því efni. Ísland stendur sig langverst aðildarríkja EES í innleiðingu nýrra reglna.
Í Evrópustefnunni sem ríkisstjórnin samþykkti segir að eitt af meginmarkmiðum EES-samningsins sé einsleitni löggjafar allra samningsaðila; „að einstaklingar og fyrirtæki njóta ávallt samsvarandi réttinda hvar svo sem þau eru á innri markaðnum á Evrópska efnahagssvæðinu, sem nú telur 31 ríki. Mikil ábyrgð hvílir á löggjafarstarfi hér á landi við að tryggja að þessu markmiði megi ná og viðhalda og þannig tryggja þessa réttarstöðu einstaklinga og fyrirtækja á öllum sviðum. Er hér um ítrustu hagsmuni að ræða.“
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir það brýnt hagsmunamál íslenskra fyrirtækja að sömu reglur gildi hér á landi og annars staðar á EES, til að tryggja aðgang þeirra að hinum sameiginlega markaði. "Ríkisstjórnin hefur því miður ekki fylgt stefnu sinni eftir með því að ráðuneytin og sendiráð Íslands í Brussel fái þann mannskap og fjárveitingar sem þarf til að tryggja þessa hagsmuni. Það skaðar hagsmuni íslensks atvinnulífs. Nú þegar rúmt ár er liðið frá samþykkt stefnunnar án þess að hún hafi skilað sýnilegum árangri, hljóta menn að þurfa að endurskoða hvernig eftirfylgninni er háttað."