Ísland verður í dag, í fyrsta skipti í sögu landsins, formlega besta knattspyrnulandslið Norðurlanda þegar nýr styrkleikalisti FIFA verður gerður opinber. Á honum mun Ísland verða á meðal 30 bestu knattspyrnuþjóða í heimi og ofar á listanum en Svíþjóð, Noregur, Danmörk og Finnland.
Þessi staða endurspeglar gríðarlegan uppgang og árangur íslenskrar knattspyrnu undanfarin ár sem náði hámarki í umspilsleikjunum við Króatíu í fyrra og í nánast epískri byrjun landsliðisins í undanriðlunum fyrir Evrópumeistaramótið í knattspyrnu sem fram fer árið 2016. Íslenska liðið hefur þegar lagt Tyrki, Letta og Hollendinga, sem hlutu brons á síðasta heimsmeistaramóti. Liðið er í efsta sæti síns riðils með níu stig, hefur skorað átta mörk og fengið ekkert á sig.
Og nú geta Íslendingar, að minnsta kosti í mánuð, núið vinum okkar og frændum frá hinum Norðurlöndunum því um nasir að langminnsta þjóðin í hópnum utan Færeyinga, sem býr á veðurbörnum kletti úti í miðju ballarhafi og hefur glímt við allskonar efnahagslegt vesen árum saman, er best þeirra allra í knattspyrnu.
Kjarninn fjallaði ítarlega um uppgang íslenskrar knattspyrnu nýverið.