Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lék sinn síðasta heimaleik í undankeppni EM gegn Lettum í Laugardalnum í dag. Íslenska liðið komst tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik fyrir framan troðfullan Laugardalsvöll en glutraði þeirri forystu niður í þeim síðari. Íslenska liðið er sem stendur enn í efsta sæti A-riðils þrátt fyrir úrslitin. Það gæti þó breyst síðar í kvöld takist Tékkum að sigra Tyrki á heimavelli.
Íslenska liðið lék án Arons Einars Gunnarssonar, fyrirliða liðsins, og Jóns Daða Böðvarssonar, framherjans sem leikið hefur lykilhlutverk í mögnuðum árangri þess í undankeppninni fram til þessa. Í þeirra stað komu þeir Emil Hallfreðsson og Alfreð Finnbogason inn í byrjunarliðið. Ísland fékk óskabyrjun og komst yfir strax á fimmtu mínútu leiksins. Þá átti Gylfi Sigurðsson aukaspyrnu sem fór beint á mark Letta. Markmaður Lettlands réð ekki við hana og sló boltann út í teiginn þar sem Kolbeinn Sigþórsson þakkaði pent fyrir sig og skoraði.
Á 18. mínútu urðu Íslendingar fyrir áfalli þegar Kári Árnason, sem hafði leikið hverja einustu mínútu í undankeppni EM fram til þessa, þurfti að fara meiddur af leikvelli. Í hans stað kom Sölvi Geir Ottesen. Þetta virtist ekki setja Ísland mikið út af laginu og á 27. mínútu óð Gylfi Sigurðsson glæsilega upp hálfan völlinn og skoraði með hnitmiðuðu skoti.
Íslendingar virtust slaka of mikið á í síðari hálfleik og hleyptu Lettum strax inn í leikinn í byrjun hans þegar þeir skoruðu þremur mínútum eftir að hann hófst. Lettar jöfnuðu svo leikinn á 68. mínútu og þar við sat. Fyrsta jafntefli íslenska liðsins í undankeppni EM staðreynd. Liðið er nú með 20 stig í efsta sæti A-riðils og með tólf mörk í plús. Úrslitin hafa engin áhrif á veru Íslands í lokakeppni EM í Frakklandi næsta sumar. Sú vera var tryggð með sigri á Kasakstan í septemberbyrjun.
Ísland á einn leik eftir í undankeppninni, gegn Tyrkjum ytra næstkomandi þriðjudag.