Á þriðjudaginn í liðinni viku birtist tilkynning á vef utanríkisráðuneytisins um að Ísland hefði gerst aðili að „samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegar viðbragðssveitar.“
Sturla Sigurjónsson sendiherra Íslands í London undirritaði samkomulagið fyrir hönd Íslands ásamt Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta.
Þar með var Ísland orðið aðili að fyrirbæri sem heitir Joint Expeditionary Force (JEF) – ásamt Bretlandi og átta öðrum ríkjum; Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Lettlandi, Litháen, Hollandi, Noregi og Svíþjóð.
„Það er fagnaðarefni að Ísland taki nú þátt í þessu öryggis- og varnarmálasamstarfi nokkurra af okkar helstu vinaríkjum. Ísland getur lagt sitt af mörkum til samstarfsins en um leið njótum við góðs af aukinni samvinnu við þessi líkt þenkjandi ríki um öryggismál í víðu samhengi,“ var haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í tilkynningu ráðuneytisins.
Þar sagði einnig frá því að Ísland myndi ekki bera kostnað af þátttöku í samstarfinu, að öðru leyti en því að fyrirhugað væri að borgaralegur sérfræðingur starfaði á vettvangi JEF þegar fram liðu stundir. Framlag Íslands yrði á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að.
Fór næstum framhjá hernaðarandstæðingum
Fréttir af aðild Íslands að JEF hafa verið fáar, svo fáar reyndar að þær fóru næstum því framhjá Samtökum hernaðarandstæðinga, að sögn formanns samtakanna, Guttorms Þorsteinssonar. Hann segir Kjarnanum að samtökunum sýnist þetta „óumdeilanlega vera hernaðarbatterí sem eigi að geta tekið þátt í átökum þrátt fyrir alla fyrirvara íslenskra stjórnvalda um að þátttaka okkar verði á borgaralegum grundvelli.“
Í umfjöllun sérfræðings norsku varnarmálastofnunarinnar í Ósló (IFS) um uppbyggingu og tilgang Joint Expeditionary Forces segir að uppistaðan í þeim herafla sem verði tiltækur innan JEF komi frá Bretlandi, eða um 80-90 prósent. Talað hefur verið um að á hverjum tímapunkti eigi að vera hægt að kalla til um það bil tíu þúsund manna herafla til margvíslegra aðgerða hvar sem er í heiminum.
Hugsunin er sú að samstarfsríkin geti, ef þau vilji leggja Bretum lið í einhverjum verkefnum, komið hratt inn í verkefnin með sínar viðbragðssveitir. JEF geti bæði gripið til aðgerða með eða óháð Atlantshafsbandalaginu. Dæmi sem stundum er tekið um hvernig JEF gæti starfað er það hvernig ríki á þessum vettvangi studdu við aðgerðir Breta er ebólufaraldur braust út í Vestur-Afríku árið 2014.
Í tilkynningu bresku ríkisstjórnarinnar um aðild Íslands segir að með JEF sé sérstök áhersla lögð á norðurslóðir, Norður-Atlantshaf og Eystrasaltið, þar sem sameiginlegu viðbragðssveitirnar geti stutt við „fælingarstellingar“ einstaka ríkja og Atlantshafsbandalagsins.
Á Guttormi er að merkja að Samtök hernaðarandstæðinga séu ekki hrifin af inngöngu Íslands á þennan vettvang. „Okkur finndist nær að við efldum samvinnu um þau öryggismál sem skipta raunverulegu máli eins og loftslagmál og viðbrögð við náttúruhamförum, frekar en að gera það á vettvangi sem stuðlar að hervæðingu norðurslóða og jafnvel aukinni spennu á milli Evrópu og Rússlands, þvert á hagsmuni Íslands.“
Fyrsta ríkið sem bætist í hópinn frá 2017
Kjarninn beindi á miðvikudag spurningum til utanríkisisráðuneytisins um aðild Íslands að JEF, meðal annars um það hvenær pólitísk ákvörðun um að ganga inn í þennan vettvang var tekin og hvenær Ísland hefði fengið boð um að ganga inn.
Ísland er fyrsta ríkið sem bætist í hópinn frá árinu 2017, er Svíþjóð og Finnland skrifuðu undir aðild sína að viðbragðssveitunum, sem tóku svo formlega til starfa árið 2018. Svör hafa ekki borist frá ráðuneytinu.
Norsk stjórnvöld sendu frá sér yfirlýsingu í liðinni viku þar sem aðild Íslands var sögð gleðileg. „Staðsetning Íslands er strategískt mikilvæg og aðild Íslands styrkir enn norður-evrópsku sjálfsvitundina í JEF,“ var haft eftir Frank Bakke-Jensen varnarmálaráðherra Noregs í tilkynningu, en Norðmenn hafa verið aðilar að sameiginlegu viðbragðssveitunum allt frá upphafi.