Geldingadalagosið, ásamt fáum COVID-19 smitum hérlendis og hæfilegum sóttvörnum á landamærunum, gerir Ísland að álitlegum áfangastað fyrir breska ferðamenn þetta sumarið, að mati blaðsins Sunday Times. Blaðið birti ítarlega umfjöllun um Ísland í gær, en samkvæmt henni er sennilegt að komufarþegar frá landinu þyrftu ekki að fara í sóttkví í Bretlandi eftir 17. maí.
Ferðabanni vonandi aflétt í maí
Frá upphafi þessa árs hefur breska ríkisstjórnin bannað fólki að fara frá landi að nauðsynjalausu. Samkvæmt breska blaðinu The Independent munu þeir sem reyna að komast til útlanda í frí þurfa að greiða sekt upp á 5 þúsund pund, en það jafngildir um 880 þúsund íslenskra króna.
Síðastliðinn föstudag birti svo samgönguráðuneyti Bretlands áætlun um tilslakanir á ferðabanninu á næstu vikum. Samkvæmt henni stendur til að taka upp litakóðunarkerfi á landamærunum þann 17. maí næstkomandi, þar sem komufarþegar frá hættuminni löndum þurfa einungis að framvísa neikvæðu PCR-prófi og þurfa ekki að fara í sóttkví.
Í umfjöllun The Sunday Times er farið yfir sóttvarnaraðgerðir á landamærunum hérlendis, þar sem bólusettir farþegar, auk þeirra sem hafa mótefni gegn veirunni mega sleppa við sóttkví. Þar sem smit eru fá hérlendis og 15 prósent landsmanna hafa nú þegar verið bólusett gegn veirunni segir blaðið að Ísland sé líklegt til að enda á grænum lista í litakóðunarkerfi bresku ríkisstjórnarinnar og þyrftu því komufarþegar frá landinu ekki að fara í sóttkví.
Dagblaðið segir landið vera uppfullt af náttúruundrum og nefnir þar sérstaklega Bláa lónið og eldgosið í Geldingadölum. Einnig bætir blaðið við að ólíklegt sé að landið verði yfirfullt af ferðamönnum í sumar og sé því gullið tækifæri til að skoða landið í friði þetta sumarið.
300 þúsund farþegar frá Bretlandi
Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu var fjórði hver brottfararfarþegi í Leifsstöð í fyrra frá Bretlandseyjum, en alls komu rúmlega 109 þúsund farþegar þaðan. Árin 2016, 2017, 2018 og 2019 var fjöldi farþega frá Bretlandi þó nokkuð stöðugur og nær 300 þúsundum, en það samsvaraði um 13 til 15 prósentum af heildarfjölda farþega um Keflavíkurflugvöll á þeim tíma.