Stöð 2 ætlar í samkeppni við Kastljós með nýjum og lengri þætti af Ísland í dag. Auglýsing fyrir hinn nýja þátt var birt á Facebook í dag og fyrsti þátturinn fer í loftið á föstudag. Þættirnir verða lengri en áður, eða um 40 mínútur að lengd, nema á föstudögum þegar þeir verða styttri.
Sindri Sindrason er ritstjóri hins nýja Íslands í dag. Í samtali við Kjarnann segir Sindri að þátturinn verði magasín- og spjallþáttur. Það hafi sýnt sig á undanförnum árum að íslensk dagskrárgerð virki mjög vel og jafnvel betur en annað efni. Sindri og aðrir núverandi umsjónarmenn þáttarins, þau Edda Sif Pálsdóttir og Ásgeir Erlendsson, halda áfram með þáttinn en fjöldi fréttamanna af fréttastofu 365 mun einnig koma að þáttagerðinni. Sindri segir að þátturinn verði gerður í meiri samvinnu við fréttastofuna, hann fjalli þannig alltaf um málefni líðandi stundar en áhersla verði áfram lögð á að vera létt og skemmtileg.
Þáttur Heiðu Kristínar Helgadóttur um stjórnmál verður hluti af þessum nýja þætti. Hann hefur fengið nafnið Umræðan og verður fyrsti þátturinn á dagskrá næstkomandi mánudag. Blaðamennirnir Kolbeinn Óttarsson Proppé og Fanney Birna Jónsdóttir verða fastagestir þar.
Þorbjörn Þórðarson mun áfram sjá um Klinkið, sem fer undir hatt Íslands í dag. Þá munu Friðrika Hjördís Geirsdóttir, Elísabet Margeirsdóttir, Kjartan Hreinn Njálsson, Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir, Kjartan Atli Kjartansson, Guðmundur Benediktsson og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir koma við sögu í þættinum.