Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hafnaði í I-riðli með Króatíu, Úkraínu, Tyrklandi og Finnlandi í undankeppni Heimsmeistaramótsins í fótbolta sem fram fer í Rússlandi árið 2018.
Karlalandsliðið var í fyrsta skipti í öðrum styrkleikaflokki við útdrátt fyrir riðlakeppni stórmóts í knattspyrnu. Í öðrum styrkleikaflokki voru sterkar knattspyrnuþjóðir á borð við Ítalíu, Slóvakíu, Austurríki, Sviss, Tékkland, Frakkland, Danmörku og Bosníu-Herzegóvínu sem þýddi að íslenska karlalandsliðið gat ekki lent með áðurnefndum þjóðum í riðli.
Heimsmeistarar Þjóðverja höfnuðu í C-riðli ásamt Tékkum, Norður-Írum, Norðmönnum, Aserum og landsliði San Marínó. Þá geta Englendingar prísað sig sæla en þeir leika í F-riðli undankeppninnar þar sem þeir munu kljást við landslið Slóvakíu, Skotlands, Slóveníu, Litháen og Möltu.
Svíar eiga ærið verkefni fyrir höndum, en þeir drógust í A-riðil ásamt Hollandi, Frakklandi, Búlgaríu, Hvíta-Rússlandi og Lúxemborg. Þá höfnuðu Danir í E-riðli með landsliðum Rúmeníu, Póllandi, Svartfjallalandi, Armeníu og Kasakstan.
Alls var dregið í níu riðla fyrir þjóðir Evrópu en sigurvegarar þeirra fara beint á HM 2018 í Rússlandi og átta lið sem lenda í öðru sæti fara svo í umspil um laust sæti.