Heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að kaupa 72 skammta af nýju lyfi sem þykir gefa góða raun til að draga úr hættu á alvarlegum veikindum fólks vegna COVID-19 við vissar aðstæður. Lyfið heitir Sotrovimab og er frá lyfjaframleiðandanum GlaxoSmithKline. Um er að ræða svokallað einstofna mótefni. Landspítali mun annast framkvæmd innkaupanna.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að meðferð með einstofna mótefnum gagnist best þeim sem eru óbólusettir eða þeim sem mynda illa mótefni vegna lyfja eða sjúkdóma. Notkunin er bundin við upphaf veikinda hjá þeim sem eru í aukinni hættu á að þróa með sér alvarlegan sjúkdóm.
Til að byrja með hefur verið ákveðið að kaupa 72 skammta af lyfinu, sem svokallað undanþágulyf og er það væntanlegt er til landsins síðar í þessum mánuði.
Alls hafa 18.333 staðfest COVID-19 smit greinst á Íslandi frá upphafi faraldurs. 548 manns hafa lagst inn á spítala vegna smita, þar af 95 á gjörgæslu. Tæpur helmingur þess hóps sem lagst hefur inn á gjörgæslu, alls 41 einstaklingur, hefur verið lagður inn eftir 1. júlí 2021. Nýgengi innanlandssmita nú er 488,4, en um er að ræða 14 daga nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa. Eins og er eru 23 á sjúkrahúsi vegna smita, þar af fjórir á gjörgæslu.