Ísland sóttist eftir pólitísku og efnahagslegu skjóli Kína eftir hrun og notfærði sér aukinn áhuga stórveldanna á Norðurslóðum og staðsetningu landsins í Norður-Atlantshafi til þess að efla samskipti við Kína á sínum tíma. Grundvallarstefnubreyting hefur hins vegar átt sér stað gagnvart Kína. Í dag nýtir Ísland sér stórveldakapphlaup Kína og Bandaríkjanna í þeim tilgangi að reyna að tryggja landinu pólitískt og efnahagslegt skjól frá Bandaríkjunum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri rannsókn sem Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og Snæfríður Grímsdóttir aðjúnkt í kínverskum fræðum unnu að um samskipti Íslands og Kína á árunum 1995-2021.
Baldur og Snæfríður ræddu við Geir Sigurðsson prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands í nýjasta þætti Völundarhússins, þáttum um utanríkisstefnu Íslands, um samskipti Íslands við Kína og niðurstöður skýrslunnar. Rannsóknin verður kynnt á morgun, föstudag, á sérstakri málstofu sem hefst klukkan 12:00 í Þjóðminjasafninu.
Íslenskir ráðamenn leituðu eftir skjóli kínverskra stjórnvalda eftir hrunið
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að samskipti landanna megi greina í fjögur mismunandi tímabil.
Fyrsta tímabilið er frá árinu 1995 til 2007 þegar ríkisstjórnir Íslands og Kína stuðluðu markvisst að nánari samskiptum á milli ríkjanna. Tímabilið hófst með opnun sendiráðs Íslands í Peking árið 1995. Kína studdi umsókn Íslands að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ísland studdi við áheyrnaraðild Kína að Norðurskautsráðinu og viðurkenndi Kína sem þróað markaðshagkerfi með undirritun viljayfirlýsingar um að efla efnahagsleg tengsl landanna. Tímabilinu lauk með því að Kína og Ísland sammæltust um að kanna möguleikann á fríverslunarsamningi á milli ríkjanna.
Annað tímabilið hófst í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 þegar íslenskir ráðamenn leituðu eftir skjóli kínverskra stjórnvalda. Þá tók Kína ákvörðun um að veita Íslandi pólitískt skjól, þ.e.a.s. diplómatískan stuðning innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gerði gjaldmiðlaskiptasamning við Ísland árið 2010. Kína veitti Íslandi einnig efnahagslegt skjól með tilkomu Fríverslunarsamningsins árið 2013 sem tók gildi ári seinna. Samfélagsleg samskipti landanna fóru ört vaxandi á þessu tímabili. Löndin skrifuðu undir fjölmarga samstarfssamninga. Þetta átti einkum og sér í lagi við rannsóknasamstarf eins og jarðhitarannsóknir og rannsóknir tengdum Norðurslóðum. Kína kom í fyrsta sinn að olíuleit á Norðurslóðum í gegnum íslensk stjórnvöld og fyrirtæki. Samvinna íslenskra háskóla við kínverska háskóla jókst. Konfúsíusarstofnunin Norðurljós var stofnuð við Háskóla Íslands. Með þessu var lagður grunnur að nánu pólitísku, efnahagslegu og samfélagslegu samstarfi. Segja má að pólitísk og efnahagsleg samskipti landanna hafi blómstrað á þessu tímabili. Það var einungis á einu sviði sem þau gerðu það ekki en Íslendingar reyndust tortryggnir í garð fjárfestinga Kínverja hér á landi og komu í veg fyrir landakaup Kínverja á Norðausturlandi.
Nútíminn einkennist af varfærni íslenskra stjórnvalda í nálgun sinni gagnvart Kína
Þriðja tímabilið hófst um 2015 og stóð stutt yfir eða til um 2017. Á þessu skeiði hætti Ísland smám saman að leita eftir skjóli kínverskra stjórnvalda. Menningarleg tengsl takmörkuðust við afmarkaða hópa samfélagsins og voru mest á sviði bókmennta. Vísindasamstarf takmarkaðist að miklum hluta við norðurslóða- og norðurljósarannsóknir þótt einkafyrirtæki hefðu náð árangri í nýtingu jarðvarma í Kína. Pólitísk og efnahagsleg tengsl náðu aldrei flugi. Pólitísk samvinna færðist ekki í aukana, fríverslunarsamningurinn skilaði minni ávinningi en margir vonuðust eftir og litlar fjárfestingar voru milli landanna. Í samfélaginu mátti greina ákveðinn ótta við þau kínversku áhrif sem ákveðnir hópar töldu að nú væri orðin raunin hér á landi. Í rannsókninni er sýnt fram á það að Kína veitti Íslandi aðeins takmarkað efnahagslegt skjól en að Íslandi hafi ekki hlotnast pólitískt skjól frá Kína.
Fjórða og síðasta tímabilið erum við nú að verða vitni að. Þetta tímabil einkennist af varfærni íslenskra stjórnvalda í nálgun sinni gagnvart Kína, stöðnun í samskiptum landanna og nú allra síðast vaxandi ágreiningi. Þetta tímabil hófst í tengslum við ákvörðun íslenskra stjórnvalda að taka ekki afstöðu til þess hvort þiggja ætti boð kínverskra stjórnvalda um þátttöku í Belti og Braut, sem er innviða- og fjárfestingaverkefni kínverskra stjórnvalda. Í dag taka íslensk stjórnvöld mið af stefnu helstu bandamanna sinna, þ.e. Bandaríkjanna, Bretlands og Norðurlandanna, gagnvart Kína.
Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi tilkominn vegna aukinna umsvifa Kína á norðurslóðum
Viðmælendur í Völundarhúsi utanríkismála ræða sín á milli þá staðreynd sem kemur fram í rannsókninni að utanríkisráðherra hafi lagt fram drög að frumvarpi til laga í samráðsgátt stjórnvalda um breytingu á varnarmálalögum um að endurskilgreina öryggissvæði við Gunnólfsvíkurfjall svo það nái yfir meirihluta Finnafjarðar. Hagsmunaaðilar hafi haft augastað á svæðinu fyrir uppbyggingu á stórskipahöfn á norðurslóðum. Í þessu samhengi sé athyglisvert að minnast á að árið 2020 sagði bandarískur aðmíráll í heimsókn sinni til Íslands að Bandaríkin hefðu áhuga á að fjárfesta í öryggisinnviðum á Austurlandi. Auk þessa íhugi íslensk stjórnvöld að takmarka möguleika fjarskiptafyrirtækja á Íslandi til samstarfs við kínverska fjarskiptageirann. Íslendingar taki einnig þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn Kína sem settar voru á þessu ári.
Í þættinum kemur fram að aukinn áhugi Bandaríkjanna á Íslandi sé fyrst og fremst tilkominn vegna aukinna umsvifa Kína á norðurslóðum og ótta um aukin samskipti Íslands og Kína, einkum á sviði efnahagsmála, en einnig vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa á norðurslóðum. Ísland sé því að láta undan þrýstingi frá Bandaríkjunum með því að beina sjónum sínum frá Peking og að Washington. En þetta sé velkomin breyting að mati sumra íslenskra ráðamenn sem beri þá von í brjósti að Ísland geti í framtíðinni notið efnahagslegt skjól frá Bandaríkjunum.
Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan.