Ísland sigraði Tékkland 2-1 á troðfullum Laugardalsvelli í kvöld í toppslag A-riðils í undankeppni evrópumeistaramótsins í knattspyrnu . Sigurinn gerir það að verkum að Ísland er á toppi riðilsins með 15 stig og er skrefi nær því að komast í lokakeppni evrópumeistaramótsins í Frakklandi næsta sumar. Mörk Íslands skoruðu Aron Einar Gunnarsson og Kolbeinn Sigþórsson.
Fyrri hálfleikur var ákaflega tíðindalítill. Mikið um stöðubaráttu og lítið um spil. Það gerði það að verkum að minnsta framgangi var fagnað eins og marktækifæri væri um að ræða.
Tékkar reyndu að dæla mikið af boltum inn á tröllið Necid, sem byrjaði í fremstu víglínu hjá þeim að þessu sinni. Það skilaði þó litlum árangri. Íslendingar sköpuðu sér nokkrar ágætar sóknarstöður en síðasta sendingin brást nánast án undantekninga.
Þrátt fyrir að umræður um lagasetningu á verkfall hjúkrunarfræðinga og ákveðnar starfstéttir innan BHM stæðu enn yfir á Alþingi á meðan á leiknum stóð voru báðir forvígismenn ríkisstjórnarinnar, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mættir á leikinn. Athygli vakti að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem lætur sig sjaldnast vanta í heiðursstúkuna, var ekki mættur að þessu sinni. Þingmennirnir Kristján L. Möller og Willum Þór Þórsson voru einnig í stúkunni í kvöld.
Tékkar skoruðu síðan mark á 55. mínútu og v ar þar að verki Borek Dockal með hörkuskoti sem var óverjandi fyrir Hannes Þór Halldórsson markvörð Íslendinga. Við markið hresstust leikar umtalsvert og íslenska liðið virtist skipta um gír. Það varð til þess að liðið jafnaði leikinn á 60. mínútu með skallamarki fyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar. Á 76. mínútu var varamaðurinn Jón Daði Böðvarsson í baráttu fyrir utan vítateig Tékka sem varð til þess að varnamaður Tékka tæklaði boltann inn í teig til Kolbeins Sigþórssonar sem var einn á móti Peter Cech, markmanni Tékka. Hann gerði engin mistök, fór framhjá markmanninum með hjálminn, og renndi boltanum í autt markið.
Einn stórkostlegasti sigur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnusögunni staðreynd.