Ísland sá aldrei til sólar gegn Tékkum á HM í handbolta í Katar í dag, en leikurinn endaði 36-25 fyrir Tékkland. Ísland náði aldrei að sýna sitt rétta andlit í leiknum, vörnin var slök og sóknarleikurinn einnig. Útkoman var einhver lélegasta frammistaða sem íslenskt landslið hefur sýnt á stórmóti frá upphafi. Burðarmenn í liðinu náðu sér engan veginn á strik í leiknum. Aron Pálmarsson skoraði eitt mark úr sjö skotum, og Guðjón Valur Sigurðsson fyrirliði komst ekki á blað, sem er afar sjaldgæft.
Staðan í hálfleik var 21-11, ótrúlegar tölur það. Stórskyttan í liði Tékka, Filip Jícha, var frábær í leiknum og náðu Íslendingar ekki að stöðva fjölbreyttan leik hans. Hann skoraði ellefu mörg í öllum regnbogans litum.
Næsti leikur Íslands er gegn Egyptum á laugardaginn.