Hversu magnað væri það ef allir í samfélaginu ekki aðeins vissu af ákveðinni rafmynt, heldur ættu eitthvað af henni líka? Mér fannst hugmyndin frábær,“ segir Bandaríkjamaðurinn David Lio um hugmyndina að baki íslensku rafmyntinni Auroracoin, eða AUR. Á undanförnum mánuðum hefur hann lagt sitt á vogarskálarnar til að auka hróður myntarinnar. Meðal annars heldur hann úti heimasíðunni auroracoin.com og hefur kynnt aurana á ráðstefnum vestanhafs tileinkaðar rafmyntum.
David er búsettur í New York-borg, þar sem hann rekur lítið ráðgjafarfyrirtæki að nafni CoinHeavy. Það sérhæfir sig í svokölluðum rafmyntum eða dulkóðunargjaldmiðlum (e. cryptocurrency). Frægust og jafnframt verðmætust rafmynta er Bitcoin en til eru hundruð mismunandi rafmynta. Auroracoin er sú fyrsta sinnar tegundar þar sem útdeiling myntarinnar byggir á landfræðilegum grunni. Aldrei áður hefur rafmynt verið dreift til íbúa á ákveðnu svæði, eins og raunin varð í mars þegar Íslendingar gátu sótt sinn skammt af aurum.
Hreifst af hugmyndinni
„Þegar ég fyrst sá tilkynninguna um Auroracoin á spjallborði um rafmyntir fannst mér hugmyndin afar áhugaverð. Samfélag þeirra sem fylgjast með, þróa og nota rafmyntir er fyrst og fremst á netinu. Spjallborðin eru full af afar tæknifærum einstaklingum og þar eru margir tilbúnir að aðstoða við verkefni sem tengjast rafmyntum,“ segir David þegar hann er spurður um kynni sín af Auroracoin. „En þegar maður ræðir við einstaklinga sem standa utan samfélagsins spyrja þeir oft sömu spurningarinnar: Hvernig er rafmyntunum dreift? Þá eru þeir ekki að spyrja um tæknilegu hliðina heldur hverjir það eru sem raunverulega eiga myntirnar í dag. Spurningin á rétt á sér. Núna þegar hugbúnaðurinn er til og er opinn öllum (e. open source) er afar áhugavert að huga frekar að dreifingarleiðunum. Ég vissi ekki mikið um Ísland. Því meira sem ég fræddist, þeim mun betur leist mér á landið sem tilraunarvettvang rafmyntar þar sem allir fá sinn skammt ókeypis. Þannig sjáum við hvað gerist þegar heilt samfélag verður meðvitað um rafmynt.“
Hvers vegna eru rafmyntirnar orðnar svona margar? Gætu Íslendingar t.d. ekki bara notað Bitcoin í stað þess að nota eigin rafmynt, ef þeir vilja notast við slíkan gjaldmiðil á annað borð?
„Bitcoin er enn í þróunarferli (e. beta), rétt eins og allar aðrar rafmyntir. Bitcoin hefur reynst nokkuð vel en hver eining kostar hundruð dollara. Þegar sú er raunin eru fáir tilbúnir að prófa sig áfram (e. experiment) með myntina. Ef einhver gefur mér rafmynt er ég mun líklegri til þess að prófa mig áfram og gera frekari tilraunir við að nota hana. Ef ég tapa einhverju þá skiptir það litlu máli.“
David segir að þrátt fyrir að rafmyntirnar, notendahópurinn og markaðurinn í kringum þær hafi þróast afar hratt að undanförnu lifum við enn árdaga myntanna. Hann hvetur Íslendinga til að sækja sína aura og skipta hluta þeirra í aðrar rafmyntir eins og Bitcoin. „Þá fæst aðeins betri tilfinning fyrir raunverulegu virði myntarinnar. Það er hægt að nota Bitcoin við ótalmargt á netinu,“ segir hann.
Lesið umfjöllunina í heild í Kjarnanum í dag.