Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, undirritaði í dag fyrir Íslands hönd yfirlýsingu vegna upptöku nýs alþjóðlegs staðals um sjálfkrafa upplýsingaskipti í skattamálum. Alls undirrituðu fulltrúar 51 ríkis yfirlýsinguna, en undirritunin fór fram í Berlín á Global Forum, fundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um gagnsæi og upplýsingaskipti í skattamálum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Forgönguríkin 51, sem í dag undirrituðu yfirlýsinguna, hafa skuldbundið sig til að innleiða hinn nýja alþjóðlega staðal um sjálfkrafa upplýsingaskipti í málum sem tengjast skattaupplýsingum skattgreiðenda, að því er segir í tilkynningunni, og „viðurkenna að árangursrík barátta gegn skattaundanskotum verður einungis háð á alþjóðavettvangi.“ Sjálfkrafa upplýsingaskipti hefjast á árinu 2017 vegna fjármagnstekna sem aflað er á árinu 2016.
„Nýi staðallinn felur í sér víðtæk skipti á upplýsingum vegna reikninga í aflandsríkjum, m.a. um stöðu reikninga og raunverulega eigendur þeirra. Markmiðið er að stöðva glæpastarfsemi sem tengist skattaundanskotum og takast á við skattsvik. Slík glæpastarfsemi fárra óheiðarlegra aðila minnkar tekjur hins opinbera, grefur undan trúverðugleika skattkerfa og eykur skattbyrði skattgreiðenda,“ segir í tilkynningunni.
Mmiðstöðvar fjármálaviðskipta hafa nú skuldbundið sig til þess að hlíta tiltekinni tímaáætlun. Munu ríkin skiptast á upplýsingum frá árinu 2017 eða 2018.