Íslandsbanki, einn stóru viðskiptabankanna þriggja, mun ekki byrja að taka mið af nýju og hærra fasteignamati fyrir árið 2023 í lánavinnslu sinni fyrr en í upphafi næsta árs. Sú ákvörðun var tekin, samkvæmt svari bankans til Kjarnans, í „ljósi aðstæðna í efnahagslífi og þrýstings á fasteignamarkaði“.
Bæði Arion banki og Landsbankinn hafa hins vegar ákveðið að byrja strax að horfa til nýja fasteignamatsins, sem er að meðaltali hátt í 20 prósentum hærra á landsvísu. Munu viðskiptavinir þeirra banka sem eru með fasteignalán því geta endurfjármagnað lán sín með tilliti til þess aukna veðrýmis sem myndast.
Endurfjármögnun í ljósi aukins veðrýmis gæti til dæmis verið möguleg hjá þeim lántakendum sem eru með fleiri en eitt húsnæðislán og vilja sameina lán til þess að minnka mánaðarlega greiðslubyrði sína.
Kjarninn veit um dæmi þess að viðskiptavinur Íslandsbanka hafi ætlað sér að ráðast í slíka aðgerð í dag, en orðið frá að hverfa vegna þeirrar ákvörðunar bankans að byrja ekki strax að horfa til fasteignamats ársins 2023.
Íslandsbanki horfir til verðmats við kaup á nýjum eignum
Í svari Íslandsbanka til Kjarnans vegna fyrirspurnar um þessi mál segir að fasteignamatið taki ekki gildi fyrr en á nýju ári og verði þá tekið inn í lánavinnslu bankans.
Bankinn segir rétt að taka fram að við kaup á nýjum eignum sé nú horft til verðmats eignarinnar og vísar svo til þess að eins og fram hafi komið hafi „Seðlabankinn ítrekað mikilvægi þess að samspil vaxtahækkana og hertra lánþegaskilyrða þurfi til þess að hægja á verðhækkun húsnæðis og innlendri eftirspurn“.
Má skilja svör bankans til Kjarnans á þann hátt að hann sé að leggjast á árarnar með Seðlabankanum með þessari ákvörðun sinni, sem er, eins og áður segir, á skjön við það sem hinir tveir stóru bankarnir á markaðnum ætla sér og einnig frávik frá því sem Íslandsbanki sjálfur hefur gert á síðustu árum.
Landsbankinn byrjaður, Arion banki á morgun
Frá Arion banka fengust þær upplýsingar að fasteignamat 2023 yrði komið inn í rafrænt íbúðalánaferli bankans strax á morgun, 3. júní og Landsbankinn er þegar byrjaður að horfa til fasteignamats næsta árs við endurfjármögnun lána.
„Já, þrátt fyrir að fasteignamat 2023 taki ekki formlega gildi fyrr en 31. desember 2022 og gildir fyrir árið 2023 þá heimilar Landsbankinn að tekið sé mið af því við beiðnum um endurfjármögnun íbúðalána strax og við birtingu þess eða frá og með 1. júní,“ segir í svari frá Landsbankanum.