Íslandsbanki og Glitnir gerðu í dag rammasamkomulag um samstarf svo að slitameðferð Glitnis nái fram að ganga. Í tilkynningu til Kauphallar eru listaðar þær aðgerðir sem ráðist verður í. Þær eru hinar sömu og áður hefur verið greint frá, það eru tillögurnar sem kröfuhafar Glitnis lögðu fyrir stýrniefnd stjórnvalda um losun fjármagnshafta í júní síðastliðnum. Í þeim tillögum var sérstaklega talað um aðgerðir sem ráðist yrði í fyrir sölu Íslandsbanka til annarra aðila, en hann er í dag að stærstum hluta í eigu slitabús Glitnis.
Rammasamkomulagið kveður meðal annars á um að sala á Íslandsbanka til íslenskra fjárfesta verður takmörkuð. Hvorki Íslandsbanki né slitastjórn Glitnis vildu tjá sig frekar um þetta atriði þegar eftir því var leitað.
Meðal þess sem gert verður er lækkun á eigin fé Íslandsbanka úr 28,4 prósentum í 23 prósent. Þessi aðgerð felur meðal annars í sér útgáfu um 16 milljarða króna víkjandi skuldabréfs eða viðbótar eigin fjár í erlendri mynt til tíu ára, útgefið til Glitnis. Þá mun Íslandsbanka gefa út um 36 milljarða króna skuldabréf til Glitnis á markaðskjörum til 10 ára. Auk þess greiðir Íslandsbanki út tæplega þriggja milljarða króna arð til Bankasýslu ríkisins, sem heldur um hlut ríkisins í bankanum.
Samkvæmt tillögunum mun Íslandsbanki gefa út nýtt víkjandi lán til Glitnis í stað núverandi láns. Það verður í evrum á markaðskjörum til að minnsta kosti tíu ára. Glitnir mun auk þess fá afhent skuldabréf í íslenskum krónum frá Íslandsbanka að andvirði samtölu innlána Glitnis í íslenskum krónum hjá bankanum. Það skuldaréf verður einnig á markaðskjörum til tíu ára.
Íslandsbanki gefur út skuldabréf til Glitnis undir svokölluðum „MTN útgáfuramma“ að andvirði 37 milljarðar króna sem koma í stað erlendra innlána Glitnis hjá íslenskum bönkum. Auk þess verða gefin út undir sama ramma um 3 milljarða króna skuldabréf til Glitnis. Glitnir mun greiða fyrir þau með hagnaði af sölu eftirstandandi eigna á Íslandi í erlendum gjaldmiðli. Skuldabréfin verða gefin út í áföngum, þau verða á markaðskjörum og til að minnsta kosti sjö ára.
"Eiginfjárhlutfall Íslandsbanka er hátt, lausafjárstaða Íslandsbanka er góð og verður bankinn vel í stakk búinn til að veita framúrskarandi þjónustu til framtíðar eftir að aðgerðir tengdar þessu samkomulagi koma til framkvæmda. Allir aðilar samkomulagsins koma til með að vinna sameiginlega að því að samningurinn gangi eftir á árangursríkan hátt," segir Birna Einarsdóttir í tilkynningu.