Sá 35 prósent hlutur sem íslenska ríkið seldi í Íslandsbanka í júní síðastliðnum er nú metinn á 87,5 milljarða króna. Hann hefur hækkað um 32,2 milljarða króna frá því að útboðið fór fram, eða alls um 58 prósent.
Virði Íslandsbanka hefur aldrei verið meira en það var við lokun markaði í dag, eða 250 milljarðar króna. Markaðsvirði bankans í heild hefur hækkað um 92 milljarða króna frá því í júní, en íslenskra ríkið á enn 65 prósent hlut í honum. Samkvæmt þessu er virði þess hluta nú 162,5 milljarðar króna.
Sá sem keypti hlut í Íslandsbanka af íslenska ríkinu á eina milljón króna í júní gæti selt þann hlut í dag á 1.580 þúsund krónur.
Rauk upp eftir tilkynninu um drög að uppgjöri
Virði hlutabréfa í Íslandsbanka hefur aukist um 4,3 prósent, eða 10,4 milljarða króna, á síðustu tveimur dögum. Ástæða þess er sú að bankinn birti drög að uppgjöri þriðja ársfjórðungs i gær sem benda til þess að hagnaður hans á tímabilinu verði langt yfir spám.
Spár greiningaraðila um hagnað voru sendar Íslandsbanka á tímabilinu 21. til 6. október og reyndust, líkt og áður sagði, langt frá veruleikanum. Þess vegna þurfti Íslandsbanki að tilkynna markaðnum um stöðuna.
Samanlagður hagnaður Íslandsbanka á fyrstu níu mánuðum ársins er samkvæmt drögunum um 16,6 milljarðar króna.
Yfirlýst markmið bankans er að greiða út 50 prósent af hagnaði hvers árs í formi hefðbundinna arðgreiðslna. Þá ætlar hann auk þess að nýta umfram eigið fé bankans til frekari arðgreiðslna eða kaupa á eigin bréfum.
Arðsemi eigin fjár langt yfir markmiði
Sá mælikvarði sem stjórnendur banka nota til að mæla árangur sinn er ekki endilega hversu mikill hagnaður er í krónum talið, heldur hver hlutfallsleg arðsemi þessa eigin fjár er. Undanfarin ár hefur þessi arðsemi verið nokkuð döpur og verið undir markmiðum.
Íslandsbanki setti sér það markmið að ná átta til tíu prósent arðsemi á eigið fé fyrir lok árs 2022 og að til lengri tíma yrði arðsemin yfir tíu prósent.
Á fyrsta ársfjórðungi 2021 var arðsemin 7,7 prósent. Á þeim næsta var hún 11,6 prósent og þeim þriðja var hún orðin 15,7 prósent. Bankinn verður því að öllum líkindum langt yfir langtímamarkmiði sínu þegar árið 2021 verður gert upp.
Vaxta- og þóknanatekjur upp um milljarð milli ára
Mestu munar annars vegar um að hreinar vaxtatekjur hreinar þóknanatekjur uxu samanlagt um einn milljarð króna milli ára.
Vaxtatekjur myndast af vaxtamun, muninum á þeim vöxtum sem bankarnir greiða fólki og fyrirtækjum fyrir innlán sem þau geyma hjá þeim og vöxtunum sem þeir leggja á útlán.
Þóknanatekjur myndast vegna þóknana sem bankinn tekur fyrir t.d. eignastýringu eða fyrirtækjaráðgjöf. Í ljósi þess að íslensku bankarnir starfa nánast einvörðungu í íslensku hagkerfi þá verður að álykta að stór hluti viðskiptavina þeirra séu stærstu fagfjárfestarnir innan þess, íslenskir lífeyrissjóðir.
Hins vegar jukust hreinar fjármunatekjur um 900 milljónir króna, aðallega vegna jákvæðrar virðisbreytingar á fjárfestingu í óskráðum hlutdeildarfélögum.