Dómstóll ÍSÍ hefur staðfest niðurstöðu yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþonsins, og sýknað Arnar Pétursson, Íslandsmeistara karla í maraþoni, af ásökunum um svindl í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta kemur fram í dómsorði dómstóls ÍSÍ, sem Kjarninn hefur undir höndum.
Eins og Kjarninn greindi frá kærði hlauparinn Pétur Sturla Bjarnason úrslit Reykjavíkurmaraþonsins til yfirdómnefndar maraþonsins og sakaði Arnar Pétursson um að hafa svindlað í hlaupinu með því að njóta liðsinnis tveggja hjólreiðamanna. Í niðurstöðu yfirdómnefndar er viðurkennt að reglur maraþonsins hafi verið brotnar, en ekki þyki sannað að hjólreiðamennirnir hafi aðstoðað Arnar í hlaupinu. Pétur Sturla kærði þá niðurstöðu dómnefndarinnar til dómstóls ÍSÍ, og krafðist þess að þátttökuréttur Arnars yrði dæmdur ógildur og hann yrði sviptur Íslandsmeistaratitli karla í maraþoni.
Dómsorð dómstóls ÍSÍ er samhljóða niðurstöðu yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþonsins, en kærandi hefur eina viku til að áfrýja niðurstöðunni til áfrýjunardómstóls ÍSÍ.
Í 10. grein reglna Reykjavíkurmaraþons segir: "Hlaupabrautin er eingöngu ætluð keppendum. Ekki er heimilt að fylgja hlaupurum gangandi, hlaupandi, á hjóli eða öðrum farartækjum (undanþága fyrir fylgdarmenn fatlaðra). Það er á ábyrgð þátttakenda að vísa frá þeim sem vilja fylgja." Í 18. grein reglnanna segir ennfremur: "Brot á ofangreindum reglum ógilda þátttökurett í hlaupinu."
Eins og áður segir viðurkenndi yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþons í niðurstöðu sinni að reglur maraþonsins hafi verið brotnar, tveir hjólreiðamenn hafi fylgt Arnari þrjá fjórðu hluta hlaupsins. Í greinargerð Íþróttabandalags Reykjavíkur, sem send var fyrir hönd yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþonsins til dómstóls ÍSÍ vegna málsins, segir: "Kæran lýtur að úrslitum í Íslandsmeistaramóti í maraþoni sem Reykjavíkurmaraþon tók að sér að framkvæma fyrir hönd Frjálsíþróttasambands Íslands. Slík keppni heyrir undir reglur Alþjóða frjálsíþróttasambandsins (IAAF) um framkvæmd götuhlaupa og maraþons sem við lítum svo á ða séu reglum hlaupsins æðri." Í áðurnefndum reglum IAAF er hvergi minnst á að bannað sé að hjóla með hlaupurum, en í 2. grein almennra keppnisreglna IAAF er lúta að aðstoð, ráðgjöf og upplýsingum segir: "Hver sá keppandi sem veitir eða fær aðstoð innan keppnisvæðis meðan á keppni stendur skal yfirdómari aðvara og benda á að ef slíkt endurtaki sig verði hann gerður leikrækur."