Íslandsmótið í Scrabble eða "skrafli" fer fram í Friðarhúsinu á horni Snorrabrautar og Njálsgötu um næstu helgi, dagana 8. til 9. nóvember, eða um Airwaves-helgina svokölluðu. Orðaleikurinn er vel þekktur víða um heim, og hefur verið vinsæll borðleikur í gegnum tíðina.
Þetta er annað árið í röð sem Íslandsmótið er haldið, en mótið í fyrra tókst með miklum ágætum. Um tuttugu manns tóku þátt í mótinu í fyrra, en því lyktaði með því að Reynir Hjálmarsson stóð uppi sem sigurvegari.
Að sögn Sigurðar Arents Jónssonar, talsmanns Skraflfélagsins, sem hefur veg og vanda að skipulagningu mótsins, fer skráning þetta árið vel af stað, en nú þegar hafa hátt í fjörutíu skraflarar skráð sig til leiks. Enn er hægt að skrá sig til þátttöku með því að senda tölvupóst á netfangið skraflfelagid@gmail.com, en áhugasamir geta einnig mætt fyrsta keppnisdaginn og skráð sig til leiks. Skráningargjald er 3.000 krónur. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir efstu sætin, en sá sigrar sem hlýtur flesta vinningana.
Talsmaður Skraflfélagsins segir miklar eftirvæntingar ríkja fyrir öðru Íslandsmótinu meðal Skrafláhugamanna. "Við fórum nú bara af stað með mótið í fyrra til að vekja enn og aftur athygli á þessum skemmtilega leik. Við vorum nokkur sem spiluðum Skrafl nokkuð mikið og vildum gera félagsskap úr þessu, og ákváðum þess vegna að blása til Íslandsmóts. Við vonum bara að það verði jafn gaman í ár og í fyrra, og að einhverjum takist að slá núverandi Íslandsmeistara við," segir Sigurður Arent Jónsson í samtali við Kjarnann.