Það er ekki aðeins fjöldi ferðamanna á Íslandi sem hefur tekið stökk á þessu ári, því íslenskum ferðamönnum erlendis hefur einnig fjölgað, samkvæmt tölum Ferðamálastofu um utanlandsferðir Íslendinga. Í síðasta mánuði voru brottfarir Íslendinga um Leifsstöð tæplega 48 þúsund talsins, eða um 6.600 fleiri en í júní 2014. Eftir hraða fækkun utanlandsferða landsmanna í kjölfar efnahagskreppunnar, þá fjölgar þeim nú hratt á nýjan leik. Það sem af er ári hafa 208.535 Íslendingar farið utan, eða 23.700 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Júní og júlí eru vinsælustu ferðamánuðir Íslendinga.
Grafið hér að ofan sýnir fjölda brottfara í júnímánuði ár hvert frá 2004 til 2015. Þegar mest lét árið 2007 fóru nærri 55 þúsund Íslendingar utan í júní en minnst fóru einungis rúmlega 24 þúsund manns í sama mánuði 2009.